Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:45:28 (1510)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það getur vel verið að hv. 4. þm. Austurl. hafi setið á 100 fundum í undirnefnd með hæstv. samráðherrum sínum, Ragnari Arnalds, Steingrími Hermannssyni og Pálma Jónssyni og þeir hafi tekið þessar ákvarðanir meira og minna sameiginlega en það hafa ekki verið gæfulegar ákvarðanir. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. samt sem áður, þótt hann geti vitnað til þess að hafa ekki haft ráðholla menn sér við hlið, að reyna að þvo hendur sínar því að hans var ríkið á þeim tíma þótt hann hefði kannski hvorki máttinn né dýrðina. Hann var að vísu að byggja í huganum einhverja kísilmálmverksmiðju austur á Reyðarfirði. Það fór með hana eins og þær verksmiðjur sem hæstv. núv. ráðherra hefur verið að byggja í huganum. Hún er ekki komin.