Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:46:48 (1511)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég varð ekki var við ágreining frá hv. þm. Páli Péturssyni gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem við studdum báðir, ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, um það að undirbúa og taka ákvarðanir um næstu stórvirkjun utan eldvirkra svæða. Ég varð ekki var við ágreining um það efni. Ég varð heldur ekki var við ágreining um lögfestingu varðandi kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði vorið 1982, ákvörðun sem tekin var af Alþingi þar sem íslenska ríkið áti að hafa forgang.
    Hv. þm. Páll Pétursson studdi hins vegar ríkisstjórn sem kúventi í því máli og varpaði því í hendur útlendinga hvort slíkt fyrirtæki yrði reist eða ekki og afsalaði sér forræði íslenska ríkisins í málinu.