Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:01:14 (1515)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir fyrir því ef hv. 1. þm. Vesturl. hefur orðið sár við mig. Ég taldi mig hafa tekið undir að ágætt væri að fá þessa tillögu en leyfði mér í umræðunni að víkja að því að sú ríkisstjórn, sem þeir styðja sem flytja tillöguna, er með áform um stórhækkað raforkuverð í landinu. Það stendur í fjárlagafrv. að gert sé ráð fyrir því að 230 millj. kr. hækkun verði á greiðslum Rafmagnsveitna ríkisins og af þeim ástæðum þurfi að hækka raforkuverð í landinu um 7%. Mér finnst kannski rétt að benda mönnum á að snúa sér að ríkisstjórninni þegar svona háttar til. Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi minnar ræðu áðan, að ég tek undir það að menn skoði þessi mál með þeim hætti sem þeir leggja til. En ég legg eindregið til að þeir snúi sér að því að sjá til þess að sú raforkuhækkun sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og þær fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem þar standa á bak við verði teknar til endurskoðunar.