Veiðar og sala á síld

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:49:32 (1552)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. sjútvrh. Undanfarna sólarhringa hefur verið mikil veiði af stórri og góðri síld, nánast mokveiði. Það er vissulega ánægjulegt en sá galli er á gjöf Njarðar að svo til öll síldin fer beint í bræðslu. Ef svo heldur áfram sem horfir með veiðarnar mun svo til allur síldarkvótinn klárast á næstu 10--14 dögum, a.m.k. á næstu 2--3 vikum. Þá horfir í það að vinnsluaðilar síldar fái ekki nægjanlegt hráefni til að fullnægja öllum þeim sölumöguleikum sem þeir hafa.
    Nú stendur þetta mál þannig af sér að verðmæti síldarinnar margfaldast, allt að fjórfaldast til fimmfaldast, við að vinna hana beint í manneldisvöru í stað þess að bræða hana. Á undanförnum árum hefur tekist að stórauka sölu á síld á ýmsa aðra markaði en hina hefðbundnu saltsíldarmarkaði og sölu á öðruvísi hantéraðri síld. Það er þess vegna enginn vafi á því að það er bagalegt, bæði frá markaðslegu sjónarmiði en einnig þjóðhagslegu, ef svo tekst til að síldarkvótinn klárast á næstu vikum eða dögum án þess að við getum fullnýtt alla sölumöguleika á síld til manneldis.
    Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. hvort til greina komi af hans hálfu að beita sér fyrir því að tryggt verði að síldveiðinni verði þannig hagað að vinnsluaðilar fái nægjanlegt hráefni til að fylla alla sína sölumöguleika. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telji að fullreynt sé með sölu á saltsíld til Austur-Evrópu á okkar hefðbundnu markaði þar í vöruskiptum eða með greiðslum á einhverju öðru formi, svo sem veiðiheimildum í Barentshafi eða einhverjum þeim verðmætum sem kaupendur þar eystra gætu af hendi látið í staðinn fyrir síldina.