Meðferð áfengissjúkra

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 14:04:54 (1561)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust að vera með svona dylgjur hér á Alþingi. Ég óska eftir því að hv. þm. tilgreini hvaða aðilar það eru sem hann telur að ekki fullnægi þeim skyldum sem þeir verða undir að gangast vegna áfengismeðferðar. Ég vil aðeins skýra frá því að á vegum heilbrrn. hefur farið fram á þessu ári skoðun á starfsemi allra þeirra aðila sem hafa fengið stuðning af opinberu fé til slíkrar meðferðar og það hefur ekki verið niðurstaða heilbrrn. að þar séu einhver umkvörtunarefni af því tagi sem hv. þm. nefndi.
    Ég óska eftir því að menn séu ekki með tilhæfulausar fullyrðingar heldur finni orðum sínum stað og hv. þm. nefni dæmi um þá aðila sem eru að fást við meðferð á áfengissjúklingum eða vímuefnasjúklingum og hv. þm. telur að séu þar að vinna verk sem betur væru falin öðrum og sem ekki séu fullnægjandi frá heilbrigðissjónarmiði. Ég óska eftir því að hv. þm. finni orðum sínum stað með dæmum en ekki tilhæfulausum fullyrðingum.