Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:13:46 (1578)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. deildi hér á skoðun okkar um flata niðurskurðinn í fjárlögum yfirstandandi árs. Það kann að hafa náðst í sumum liðum að koma fram áformum um flatan niðurskurð en við skulum líka athuga að hluti niðurskurðarins var settur í pott sem ráðherra hafði til ráðstöfunar og kallaðist sá liður: Ráðstafanir vegna rekstrarsparnaðar. Ráðherra gat því deilt því út aftur þannig að mínu áliti verður það mjög misjafnt hvernig stofnunum tekst að ná þessum flata niðurskurði þegar upp er staðið.
    Ég vil taka það fram að ég tel þetta ekki rétta aðferð til að ná niður halla og það hefur oft sýnt sig. Þetta hefur verið reynt áður og ekki gefist vel. Þetta er mjög erfitt fyrir stofnanir sem eru áður búnar að taka á sig tilætlaðan niðurskurð og reyna að hagræða samkvæmt því og svo á síðustu stundu fá þær yfir sig þennan flata niðurskurð og allt fer úr skorðum sem þær hafa áður verið búnar að áætla. Ég geri ráð fyrir að við getum kastað þessu á milli okkar, en það mun koma í ljós síðar þegar annað fjáraukalagafrv. kemur fram eða a.m.k. þegar endanlegt uppgjör fer fram og ríkisreikningur mun sýna niðurstöðurnar.