Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:17:58 (1582)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur flutt ræður og svarræður af hófsemi og afar skilmerkilega eins og hans er vandi. Það er fjarri mér í lok þessarar umræðu að fara að ræða frv. sem hér liggur fyrir í einstökum atriðum eða efnislega. Hæstv. fjmrh. greindi hins vegar frá því í svari sínu við fyrirspurn hv. 2. þm. Vestf. um frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði að í fyrsta lagi væri hann hlynntur því að frv. yrði

flutt á þessu þingi og í öðru lagi að yfir stæði athugun á vegum fjmrn. á breyttri framsetningu ríkisreiknings og fjárlaga og vitnaði til þess að um það væri sérstakur kafli í athugasemdum með fjárlagafrv.
    Ég vil taka fram að ég tel þetta afar merkilegt mál og mjög vandasamt verk að stefna að nýrri löggjöf eða breytingum á löggjöf um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga ef þær breytingar eru sem einhverju nemur. Undir lok þessa kafla í fjárlagafrv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Meginniðurstaða vinnuhópsins er að rétt sé að breyta framsetningu og flokkun tekna ríkissjóðs í ríkisreikningi og fjárlögum til samræmis við þær uppgjörsaðferðir sem notaðar eru á alþjóðlegum vettvangi.``
    Ég vænti þess að það muni þurfa verulegrar athugunar við og met mikils þá vinnu sem unnin er í fjmrn. að þessu verkefni. Í kaflanum um þetta efni í fjárlagafrv. kemur hins vegar fram að ýmislegt af því sem þar er nefnt, sem þurfi breytinga við, er þegar í gildandi lögum. Jafnframt kemur fram að þar er mjög tekið undir þá gagnrýni sem ég hef flutt úr þessum ræðustól á undanförnum árum á þann mismun sem er og hefur verið að undanförnu á framsetningu ríkisreiknings annars vegar og fjárlaga og fjáraukalaga hins vegar. Í þessum kafla sem ber fyrirsögn um greiðsluuppgjör og framsetningu fjárlaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lagðar hafa verið fram tillögur um breytta framsetningu fjárlaga til samræmis við ríkisreikning. Í fyrsta lagi er talið nauðsynlegt að sem mest samræmi sé milli ríkisreiknings og fjárlaga. Í öðru lagi er ekki talið fullnægjandi að áfallnar en ógreiddar skuldbindingar ríkissjóðs séu færðar í ríkisreikningi eftir lok fjárhagsársins. Nauðsynlegt er að þær skuldbindingar sem ákveðnar eru eða falla á ár hvert sem hluti eða afleiðing af ríkisstarfseminni komi fram í fjárlögum. Að öðrum kosti næst ekki yfirsýn yfir raunveruleg ríkisumsvif og breytingar þeirra frá einu ári til annars.``
    Segja má að það sem hér hefur verið lesið sé endursögn á gagnrýni minni á undanförnum árum. Ég hlýt af þessu tilefni að rifja upp að á síðasta kjörtímabili gagnrýndi ég þáv. fjmrh. stundum æði harkalega fyrir að þessi mismunur á framsetningu fjárlaga og fjáraukalaga annars vegar og svo ríkisreiknings hins vegar leiddi til þess, sem hér er fjallað um í fjárlagafrv. og ég vitna til, að í fyrsta lagi væri mikill mismunur á niðurstöðu þessara gagna og sá mismunur væri lagaður til þess að villa um fyrir, ekki einungis hv. alþm. heldur og einnig ekki síst almenningi í landinu. Þegar tvenns konar niðurstöður eru birtar um afkomu ríkissjóðs, ýmist í ríkisreikningi eða fjárlögum og fjáraukalögum hins vegar.
    Ég hafði stundum meira að segja leyft mér að kalla þetta feluleik því stórar fjárhæðir sem birtast og koma til gjalda í ríkisreikningi voru ekki færðar til gjalda í fjárlögum eða fjáraukalögum.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um þetta, ég hef gert það oft og mörgum sinnum og skal ekki lengja þessa umræðu mikið en þessi mismunur birtist t.d. í því að ef ríkissjóður til að mynda keypti húseign fyrir 100 millj. kr., yfirtæki lán sem á húsinu hvíldu fyrir t.d. 50 millj. kr. og gæfi út skuldabréf til fyrri eigenda fyrir 40 millj. kr. en greiddi í peningum 10 millj. kr. þá væru eftir þessu fyrirkomulagi um greiðsluyfirlit ríkissjóðs, sem birtist í fjárlögum og fjáraukalögum þess árs, færðar til gjalda 10 millj. kr. af þessum 100 millj. 100 millj. kr. yrðu hins vegar færðar til gjalda í ríkisreikningi. Þetta tel ég vera ekki einungis óþarft heldur mjög ámælisvert við uppsetningu gagna af þessu tagi og hef farið ofan í það margsinnis.
    Ég hlustaði á ráðuneytisstjóra fjmrn. í útvarpsþætti einhvern tímann í haust þar sem hann lýsti þessari vinnu og þeim hætti sem hafður væri á um greiðsluuppgjör annars vegar hjá ríkissjóði og rekstraruppgjör hins vegar í ríkisreikningi og hann fór þeim orðum um greiðsluuppgjör ríkissjóðs að það væri líkast tékkheftisbókhaldi. Það eru orð að sönnu. Þetta eru greiðsluhreyfingar ýmist inn eða út úr ríkissjóði sem hefur verið stuðst við þegar hæstv. fjármálaráðherrar að undanförnu hafa lagt í fyrsta lagi fjárlagafrv., fjárlög eru afgreidd, og síðan hafa þeir flutt fjáraukalagafrv. Um þetta hafa staðið deilur og sem ég skal ekki rekja.
    En vegna þessara setninga sem ég las úr greinargerð fjárlagafrv. um þetta efni þá hlýt ég að benda á að það þarf ekki breytingar á lögum til þess að koma þessu fram heldur einungis að framfylgja lögunum eins og þau eru.
    Um þetta efni er fjallað í lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga en þau lög eru að stofni til frá 1966. Lögunum var breytt 1985 og ég man mjög eftir þeirri breytingu vegna þess að breytingin varð m.a. til þess að það þurfti að breyta því fjárlagafrv. sem þá lá fyrir, en þá var ég formaður fjárveitinganefndar. Þá var það m.a. tekið inn í 1. gr. fjárlaga, þar skyldu talin öll endurlán ríkissjóðs.
    Um þetta segir svo í þessum lögum, með leyfi hæstv. forseta, í 64. gr.:
    ,,Í A-hluta fjárlaga skal áætla sundurliðuð gjöld og tekjur á rekstrarreikningi. Enn fremur skal áætla allar hreyfingar á innlendum og erlendum lánum ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og sjóða, svo og á lánum endurlánareiknings ríkissjóðs. Þó skal eigi getið lána sem greidd eru að fullu á sama ári og þau eru tekin.``
    Þessi lagaákvæði eru því skýlaus um þær breytingar sem hér er fjallað um í athugasemdum með fjárlagafrv. og þarf því ekki lagabreytingar til. Lögin eru fyrir hendi. Enn fremur segir í þessum lögum í 66. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjárlagaárið skal afmarka eftir reglum sem um ræðir í II. kafla og allar sömu meginreglur skulu gilda um efnisskipun og sundurliðun fjárlaga og þær er gilda um ríkisreikning, að svo miklu leyti sem við á. Þó má sundurliðun í fjárlögum vera minni en í ríkisreikningi.``

    Í þessari lagagrein er sem sagt algjörlega skýrt kveðið á um að sem allra mest samræmi skuli vera á milli framsetningar fjárlaga og fjáraukalaga annars vegar og ríkisreiknings hins vegar, en ekki sá mikli mismunur sem hefur verið og tíðkast undanfarin ár á milli þessara gagna sem felst í því að annað gagnið er sett fram á svokölluðum greiðslugrunni og hitt á svokölluðum rekstrargrunni.
    Ég taldi ástæðu til að vekja á þessu athygli í tilefni af því að hæstv. ráðherra vitnaði til þessara kafla í athugasemdum við fjárlagafrv. Þar er m.a. vitnað til þess sem ég gerði nærri því að prófmáli í öllu þessu dæmi sem voru skuldbindingar sem ríkissjóður gekkst undir við yfirtöku á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins á sínum tíma þannig að mjög fer þar saman öll sú gagnrýni sem ég hef flutt um þetta efni og það sem hér segir í þessum texta í athugasemdum með fjárlagafrv. og er það vel.
    Ég vil svo aðeins segja það að ég fagna því að sú vinna er í gangi sem lýst hefur verið. Ef sú vinna á að leiða til þess að breytingar komi fram í verulegum mæli á lögunum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga hlýtur það að kosta miklar athuganir og verulega vinnu, það er vandasamt verk. En það er ekki vandasamt verk að framfylgja lögunum eins og þau eru og á það skortir. Á það skorti verulega í tíð fyrrv. hæstv. fjmrh. og ég vonast sannarlega til þess að núv. hæstv. fjmrh. beiti sér fyrir því að við afgreiðslu fjáraukalagafrv., sem hér er til umræðu, verði þetta fært í það horf að ekki þurfi að verða mismunur á milli niðurstöðu í þessu fjáraukalagafrv. og ríkisreikningi. Það er rétt sem hann sagði, þetta er ekki endanlegt mál. Það kunna að verða breytingar til loka ársins en við vonum að við lokayfirferð þess þurfi ekki að vera mismunur á niðurstöðum og því sem standa mun í ríkisreikningi fyrir árið 1992 þegar hann birtist.