Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 18:01:40 (1588)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég tel ástæðu til að nefna. Í fyrsta lagi er það fsp. frá 6. þm. Norðurl. e. sem spurðist fyrir um þau útboð sem farið hafa fram á vegum Vegagerðarinnar. Þau útboð snúa að nokkru leyti að framkvæmdum sem ekki eru á vegáætlun næsta árs. Fram hefur komið að Ríkisendurskoðun hefur fett fingur út í framkvæmdina. Af þessu tilefni vil ég segja þetta:
    Innan tíðar mun verða lögð fram till. til þál. og í þeirri tillögu verður ráðgert að breyta útgjaldafjárheimildum Vegagerðarinnar á yfirstandandi ári þannig að 50 millj. kr. sem ætlaðar voru til snjómoksturs geti gengið til kostnaðar vegna útboðanna. Sum útboðin eru um framkvæmdir sem eru á vegáætlun og þær framkvæmdir verða að sjálfsögðu greiddar af fjármunum á næsta ári. Hins vegar verður settur sá fyrirvari í samninga við viðkomandi aðila sem taka að sér verkið að greiðslur komi ekki fyrr en fjárlög hafi verið samþykkt.
    Haft hefur verið samband við Ríkisendurskoðun um framkvæmd málsins og gengið þannig frá málinu að Ríkisendurskoðun sætti sig við. Þetta vildi ég að kæmi fram með þessum hætti og jafnframt verði frá því skýrt að hér er ekki verið að breyta skiptingu á milli kjördæma því þótt boðin séu út verk sem tilheyra vissum kjördæmum mun sú skipting ekki breytast eftir að framkvæmdir fyrir allt næsta ár liggja fyrir. Þetta mál höfum við kannað mjög rækilega í fjmrn. og teljum að hægt sé að una við þessa framkvæmd málsins.
    Hv. 2. þm. Austurl. ræddi um fjárlög og fjárlagahalla en það mál var nokkuð til umræðu fyrr í dag, ekki síst þegar hv. þm. Pálmi Jónsson ræddi um þetta mál og aðferðir til uppgjörs. Það kann að vera áhugavert að rifja það upp að ef gert hefði verið upp með reikningsaðferðinni á sl. ári hefði hallinn ekki verið 12,5 milljarðar heldur líklega nær 17 milljörðum vegna þess að um talsverðar skuldbindingar var að ræða.
    Hv. þm. spurði síðan um 6. gr. fjárlaga og þá einkum og sér í lagi heimildir til kaupa á embættisbústöðum. Það er rétt sem fram kom í hans máli að athugun hefur staðið á því hvernig rétt sé að leigja út eða kaupa embættisbústaði og þó fyrst og fremst til að samræma reglur þar að lútandi milli aðila. Það

eru fyrst og fremst prestar, læknar, sýslumenn og slíkir sem njóta þessara fríðinda. Þess vegna má gera ráð fyrir því að hægar verði farið í sakirnar að nota þær heimildir sem eru í 6. gr. Alls ekki er útilokað að fleiri bústaðir verði keyptir. Því miður gerðist það að sá starfsmaður ráðuneytisins sem um þetta mál fjallar sérstaklega varð veikur og hefur ekki getað komið til vinnu og einhver bið verður þess vegna á því að skýrsla verði tilbúin. Málið var til umræðu í ríkisstjórninni, það er hlé á þeirri umræðu en vonandi gefst kostur á því innan tíðar að taka málið upp aftur þar til þess að fá skýrari línur í það.
    Hv. þm. Guðmundur Bjarnason ræddi síðan nokkuð um útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála. Ég vil byrja á því að þakka ýmislegt sem kom fram í hans máli sérstaklega, sem ég reyndar vissi fyrir, hans skilning á því að það þyrfti að neyta margra tiltækra ráða til þess að ná niður útgjöldum og spara í þessum mjög svo dýra málaflokki.
    Þegar ég var að ræða að það þyrfti í stærri stíl að láta fólk greiða hlutdeild í þeirri þjónustu sem það fær, bæði lyfjakostnað og á öðrum vettvangi, þá á ég við það til að mynda að það mætti hækka hlutfallið. Ég vil láta það koma fram að við gerum ráð fyrir því ef hlutfallsgreiðslurnar hækkuðu úr 25% í 30% að ríkissjóður spari þannig 150 millj. kr.
    Ég á enn fremur við það að full ástæða er til þess að samræma reglur um gjaldtöku innan og utan sjúkrahúsa, t.d. að inniliggjandi sjúklingar greiði fyrir sömu þjónustu og göngudeildarsjúklingar, þannig að greitt verði fyrir sérfræðikostnað, lyf og rannsóknir. Þetta er auðvitað gert til þess að viðkomandi aðilar, hvorki læknar né sjúklingar, freistist til þess að leggja sjúkling inn á sjúkrahús í því augnamiði eingöngu að komast hjá þeim greiðslum sem viðkomandi hefði greitt ef hann hefði verið sjúklingur á göngudeild. Þetta er vel þekkt og ég veit að ég þarf ekki að skýra þetta frekar fyrir hv. þm.
    Eins og fram hefur komið fyrr og kom aftur fram hjá hv. þm. er gert ráð fyrir því að 300 millj. kr. færist til næsta árs vegna sjúkratrygginga. Heilbrrn. hefur ekki samþykkt þá ákvörðun en frv. byggir á því eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. Við erum nú að leita allra leiða til að ná niður þessum kostnaði. Fjmrn. hefur ekki fallist á að taka þessa upphæð inn á yfirstandandi ári en hefur heldur ekki útilokað það. Þetta er mál sem þarf að skoða mjög rækilega því svo kann að fara að við finnum leiðir til þess á næsta ári að létta af ríkinu kostnaði. Þá er auðvitað sjálfsagt að færa milli ára eins og gert hefur verið við aðrar stofnanir.
    Um geislalækningar og krabbameinslækningar get ég ekki sagt mikið meira en ég hef þegar sagt. Fjárlagaskrifstofan hefur farið yfir öll sín gögn um málið og það eru einu heimildirnar sem um þetta er að finna í áætlunum sjúkrahússins, en þessar umræddu breytingar komu ekki til umræðna á milli heilbrrn. og fjmrn. og fjárlagaskrifstofan lækkaði ekki útgjaldaáætlun sjúkratrygginga vegna þessa máls enda hefur aldrei verið gert ráð fyrir hækkun útgjalda sjúkratrygginga vegna þess arna í fjárlagavinnunni. Þetta er sú niðurstaða sem kemur frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Ef hér er hins vegar um mistök að ræða þá er að sjálfstöðu ástæða til að líta á það en staða málsins í dag er þessi.
    Vænti ég þess þá, virðulegi forseti, að mér hafi tekist að svara flestum þeim fyrirspurnum sem til mín var beint.