Lánsfjárlög 1993 o.fl.

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 18:21:13 (1595)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga sem er 145. mál þessa þings. Lánsfjárlög eru nú sem fyrr mótuð af niðurstöðum fjárlagafrv. og þeirri efnahagsstefnu stjórnvalda sem það byggist á.
    Í upphafi máls míns vil ég vekja athygli á fjórum atriðum sem að þessu sinni eru helstu einkenni frv. til fjárlaga og snerta lánsfjármál.
    1. Lánsfjáreftirspurn hefur dregist verulega saman á yfirstandandi ári. Frumstæður verðbréfamarkaður og erfiðleikar í rekstri banka hér á landi hafa einkum orðið til þess að samdráttar gætir ekki nægjanlega í lækkun vaxta.
    2. Gangi áætlun frv. eftir mun hrein lánsfjáröflun ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og opinberra lánastofnana lækka enn frekar á næsta ári. Góðar líkur eru á að rúmlega 2 / 3 hluta hennar verði unnt að afla innan lands án þess að það leiði til hækkunar vaxta.
    3. Greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum er vaxandi áhyggjuefni. Á næsta ári fer nálægt helmingi hærri hlutur útflutningsverðmæta þjóðarinnar til þessara greiðslna en árið 1987.
    4. Samhliða því að yfirdráttarheimild ríkissjóðs í Seðlabanka fellur niður um næstu áramót hef ég ákveðið að láta vaxtaákvörðun á ríkisverðbréfum ráðast af útboðum á markaði. Með þessu er stigið veigamikið skref frá beinum afskiptum af vaxtaákvörðun í landinu.
    Betra jafnvægi ríkir nú á lánamarkaði en á undanförnum tveimur árum. Ástæða þess er að verulega hefur dregið úr lánsfjáreftirspurn. Á fyrri hluta þessa árs er lánsfjáreftirspurnin talin hafa aukist um 4,2% eða 27 milljarða kr. í stað 12,9% eða 68 milljarða kr. á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur þannig 60%. Lán til ríkisins jukust um 6,5% á fyrri hluta þessa árs samanborið við 20,3% á sama tíma í fyrra. Minni ásókn í lánsfé ætti að öðru jöfnu að leiða til lækkunar raunvaxta. Þessara áhrifa gætti á fyrri hluta ársins og fóru raunvextir þá lækkandi.
    Á síðustu mánuðum hafa raunvextir sveiflast á verðbréfamarkaði en það er fremur talið endurspegla veikleika hans en breytingar á framboði og eftirspurn. Á síðustu vikum hafa vextir á óverðtryggðum skammtímabréfum þó heldur þokast niður á við.
    Á undanförnum árum hefur lánsfjárþörf hins opinbera aukist mjög mikið. Hér vegur þyngst lánsfjárþörf húsnæðislánakerfisins og ríkissjóðs. Á þessu ári hefur tekist að hægja verulega á þessari þróun og er útlit fyrir að hrein lánsfjárþörf hins opinbera verði um 12 milljörðum kr. minni á þessu ári en 1991. Þetta sýnir glögglega þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum á árinu.
    Hrein lánsfjárþörf hins opinbera er áætluð röskir 25 milljarðar kr. á árinu 1993 eða um 3 milljörðum kr. lægri en á þessu ári. Áformað er að afla 17,6 milljarða kr. á innlendum markaði nettó en 7,5 milljarða kr. erlendis. Á þessu ári nema hreinar lántökur innan lands 22 milljörðum kr. og erlendar lántökur 6,5 milljörðum kr. nettó. Á áætluðu verðlagi næsta árs hefur lánsfjárþörf hins opinbera lækkað úr ríflega 42 milljörðum kr. árið 1991 niður í 25 milljarða kr. á árinu 1993 eða um 40% ef áætlanir ganga eftir. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Seðlabanka Íslands er talið að innlendur sparnaður verði um 34 milljarðar kr. árið 1992, þar af kerfisbundinn sparnaður um 20 milljarðar kr. eða heldur meiri en á síðasta ári. Aukning frjáls sparnaðar er hins vegar minni en á síðasta ári eða 14 milljarðar kr. Áætlað er að heildarsparnaður verði um 36 milljarðar kr. á árinu 1993 og verði 9,3% af landsframleiðslu. Reiknað er með að kerfisbundinn sparnaður verði um 19 milljarðar kr. en sá frjálsi um 17 milljarða kr. Rétt er að undirstrika að skekkjumörk við þessar áætlanir eru veruleg og því verður að skoða niðurstöðuna með fyrirvara. Lánsfjárþörf hins opinbera sem hlutfall af nýjum, innlendum sparnaði er því áætluð tæplega 70% á árinu 1993.
    Á árinu 1993 var gert ráð fyrir að nýjar erlendar lántökur þjóðarbúsins til lengri tíma en eins árs verði um 31 milljarður kr. Að afborgunum frátöldum er áætlað að hrein aukning erlendra lána á árinu 1992 verði 7,5 milljarðar kr. sem jafngildir 2% af landsframleiðslu. Hrein aukning erlendra lána þjóðarbúsins á árinu 1992 er áætluð 12,8 milljarðar kr. Til að fá raunhæfa mynd af erlendum skuldbindingum þjóðarbúsins er eðlilegt að skoða það sem kallað er hrein skuldastaða, þ.e. stöðu langra erlendra lána og skammtímaskulda að frádreginni gjaldeyriseign þjóðarinnar. Skuldastaðan sem hlutfall af landsframleiðslu hefur farið hækkandi frá árinu 1987, enda hefur verið stöðugur halli á viðskiptum við útlönd allt þetta tímabil sem fjármagnaður er með erlendum lánum. Árið 1992 eru horfur á að skuldahlutfallið verði nálægt 49% af landsframleiðslu og á árinu 1993 stefnir í 52% eða með því hæsta sem orðið hefur. Þessi skuldastaða hlýtur að vekja okkur öll til umhugsunar um þá hættu sem stafað getur af mikilli erlendri skuldasöfnun. Greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum þjóðarbúsins stefnir í sömu átt. Í ár er hún talin verða um 8,3% af landsframleiðslu. Það jafngildir um 25% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Í áætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að greiðslubyrðin þyngist verulega vegna mikilla afborgana af erlendum lánum og fari í 30% af útflutningstekjum. Þetta jafngildir því að allar þorskafurðir landsmanna ganga til afborgana af erlendum lánum þjóðarinnar á næsta ári. Vaxtabyrðin eykst þó minna þrátt fyrir aukna skuldsetningu þar sem á móti vegur áframhaldandi lækkun vaxta á alþjóðamörkuðum. Þannig er talið að meðalvextir af erlendum lánum lækki á þessu ári úr 8% í 6,9% og verði um 6,7% á árinu 1993 ef áætlanir um þessi atriði standast.
    Í byrjun júní á þessu ári gerði fjmrn. samning við Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu bankans við

ríkissjóð sem takmarkar aðgang ríkissjóðs að yfirdrætti í Seðlabankanum innan ársins. Ákvæði samningsins taka mið af framlögðu frv. til laga um starfsemi Seðlabanka Íslands. Í samningnum er gert ráð fyrir að dregið verði úr fyrirgreiðslu Seðlabankans í áföngum. Þannig er á þessu ári 3 milljarða kr. hámark á yfirdráttarheimild ríkissjóðs en um áramótin fellur yfirdráttarheimild niður. Þetta hefur það í för með sér að ríkissjóður verður að mæta allri lánsfjárþörfinni á markaði. Með þessu er stefnt að því að draga úr þensluáhrifum sem mikill yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabanka gæti valdið. Nauðsynlegur þáttur í þessari nýbreytni er að ríkissjóður eigi jafnan aðgang að lánsfé á lánamarkaði. Því var ákveðið að láta vaxtaákvörðun á ríkisverðbréfum ráðast í útboðum á markaði en fram að þeim tíma hafði vaxtaákvörðunin verið tekin einhliða af stjórnvöldum. Með þessu var stigið veigamikið skref frá beinum afskiptum af vaxtaákvörðun í landinu. Fyrstu verðbréfin sem seld voru með útboði voru ríkisbréf og hafa þau verið boðin út mánaðarlega síðan í júní. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hefur farið lækkandi með hverju útboði og er meðalávöxtun bréfanna nú 10,6% en var 11,5% í júní. Er sú þróun í samræmi við þá stöðu sem ríkir á peningamarkaði um þessar mundir.
    Nú hefur verið ákveðið að ríkisvíxlar og spariskírteini ríkissjóð verði seld á sama hátt og ríkisbréfin, þ.e. með útboði. Fyrsta útboð spariskírteina fór fram um miðjan október. Frá og með næstu mánaðamótum verða ríkisvíxlar seldir með útboði. Framvegis mun ríkissjóður þannig hafa meiri möguleika á að stýra samsetningu þeirra lána sem hann tekur, þar á meðal hlutfalli milli langtímalána og skammtímalána en hlutfall skammtímalána hefur verið allt of hátt.
    Frv. til lánsfjárlaga 1993 nær til allra lána sem ríkissjóður hyggst taka eða ábyrgjast á árinu 1993. Þannig næst heildarsýn yfir ríkisábyrgðir á einum vettvangi.
    Helsta nýmæli frv. er að í viðauka sem birtist með lagatexta kemur fram hvernig ráðgert er að skipta lántökum einstakra aðila milli erlendra og innlendra markaða. Þó segir að fjmrh. sé heimilt að víkja frá þeirri skiptingu hvað varðar ríkissjóð enda standi sérstaklega á og að höfðu samráði við bankastjórn Seðlabanka Íslands. Að baki liggja tvær meginástæður. Í fyrsta lagi þarf ríkissjóður strax á næsta ári að mæta allri lánsfjárþörf sinni á markaði þegar tekið verður fyrir yfirdrátt ríkissjóðs í Seðlabankanum eins og áður var nefnt. Mikilvægt er að sú breyting valdi ekki óæskilegum sveiflum á peningamarkaðinum. Í öðru lagi taka nýjar reglur um fjármagnsflutninga til og frá öðrum löndum gildi um næstu áramót. Þykir ástæða til að hafa þetta svigrúm verði verulegt fjárstreymi úr landinu.
    Þá er ákvæði í frv. þess efnis að lögbundin framlög til ýmissa aðila og verkefna skulu ákveðin í fjárlögum 1993.
    Ég mun nú, virðulegur forseti, víkja að lántökum samkvæmt frv.
    Í frv. er gert ráð fyrir að heimila ríkissjóði lántöku að fjárhæð allt að 15,8 milljarða kr. á árinu 1992 og er það í samræmi við greiðsluyfirlit fjárlagafrv. Afborganir af eldri lánum ríkissjóðs eru áætlaðar 6,3 milljarðar kr. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs nemur þannig um 9,5 milljörðum kr. Í ár stefnir hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs í u.þ.b. 11 milljarða kr. Af fyrrnefndum 15,8 milljarða kr. lántöku ríkissjóðs er gert ráð fyrir að endurlána 6,2 milljarða kr. til stofnana og sjóða í B-hluta fjárlaga. Þar vega þyngst 3,5 milljarða kr. lán til Lánasjóðs ísl. námsmanna og 1,3 milljarða kr. lán til atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar til að mæta misvægi á greiðslustreymi greiddra og innheimtra afborgana og vaxta. Á móti þessum lánveitingum er gert ráð fyrir að innheimta afborgana af áður veittum lánum nemi um 3,2 milljörðum kr. á árinu 1993.
    Það sem ég sagði áður um 15,8 milljarðana átti ekki við 1992 heldur 1993 eins og ég býst við að hv. þm. hafi heyrt og skilið.
    Stærsti hluti lánsfjárþarfar hins opinbera á næsta ári er nú sem fyrr vegna húsnæðislánakerfisins. Í frv. er gert ráð fyrir að heimila Húsnæðisstofnun ríkisins lántöku allt að 21 milljarði kr. eða um 14,3 milljörðum kr. umfram afborganir hennar. Miðað er við að ný húsbréf verði afgreidd fyrir að hámarki 12 milljarða á árinu 1993 sem er sama fjárhæð og í ár. Nýjar lántökur byggingarsjóðanna nema um 9 milljörðum kr.
    Áætlað er að Landsvirkjun taki lán að fjárhæð allt að 7.450 millj. kr. á árinu 1993. Hrein lánsfjárþörf verður þó ekki nema 730 millj. kr. eða sem svarar til fyrirhugaðra framkvæmda þar sem afborganir af eldri lánum nema 6,7 milljörðum.
    Þá er í frv. gert ráð fyrir að lántökur opinberra fjárfestingarlánasjóða nemi allt að 4,5 milljörðum kr. en hér vegur þyngst 2,3 milljarða kr. lántaka Iðnlánasjóðs.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1992 var ríkisábyrgð afnumin af öllum skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnaði til eftir 1. mars 1992. Þannig er ekki sett þak á lántökur Fiskveiðasjóðs í 4. gr. frv. Hins vegar bera lánskjör Fiskveiðasjóðs ótvírætt vitni þess að erlendir lánardrottnar telji að eignarhald ríkissjóðs á sjóðnum jafngildi fullri ríkisábyrgð. Í viðauka frv. er miðað við að lántökur Fiskveiðasjóðs verði ekki hærri en 2,5 milljarðar á næsta ári.
    Áætlaðar afborganir áðurnefndra fjárfestingarlánasjóða ríkisins nema 6,9 milljörðum kr. þannig að hrein lánsfjárþörf þeirra er því sem næst engin.
    Í frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður veiti sjálfskuldarábyrgð á lántökum tveggja sjálfstæðra aðila á árinu 1993, samtals að fjárhæð 89 millj. kr. Hér er um lægri fjárhæð að ræða en oft áður. Ríkisábyrgðir hafa verið notaðar ótæpilega á undanförnum árum og hafa menn sopið seyðið af því hvað felst í því að

veita ríkisábyrgðir. Þannig hefur þurft að afskrifa verulegar fjárhæðir hjá fjárfestingarlánasjóðunum og aðrar ábyrgðir hafa fallið beint á ríkissjóð. Með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu er skylt að gera þessi málefni mun gegnsærri en verið hefur. Á vegum ráðuneytisins er verið að skoða hvernig reglum um ríkisábyrgðir verður breytt svo ekki verði gengið eins léttúðlega um þær og til þessa. Vonir standa til að unnt verði að ljúka því verki í vetur. Til greina kemur að lögfesta þá reglu að í stað ábyrgða verði ákveðin framlög svo sem til ferjumála og annarra áþekkra mála þar sem víst er að tekjur af fjárfestingum munu ekki standa undir útgjöldum.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir áformum stjórnvalda um lántöku ríkissjóðs og annarra opinberra aðila sem ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir. Frv. til lánsfjárlaga 1993 tekur mið af þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálum á yfirstandandi ári og stuðlar að því að bæta hann enn frekar.
    Ég mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. fjárln. sem vísi því svo til efh.- og viðskn. til frekari umfjöllunar. En fyrst þarf að sjálfsögðu að vísa því til 2. umr.
    Ég mun ekki fjalla frekar um frv., greinarnar eru tiltölulega skýrar og hafa legið fyrir í þskj. og í frv. er að finna athugasemdir.