Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 15:15:02 (1621)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Þó mér komi það á óvart efa ég ekki að hæstv. ráðherra hefur metið það rétt að nauðsynlegt muni vera að breyta lögum vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði einnig á þessu sviði. Þó verð ég að taka undir það sem kom fram áðan að ótrúlega langt teygir sig krumla EB. Hún minnir á krumluna úr heiðnabergi íhaldsins sem einu sinni var talað um. En ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra sé sammála mér um það að hér er nefnilega fram komið mál þar sem við þurfum að byggja upp einhvers konar girðingu. Það vekur athygli mína að Danir eru að því. Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Við þetta má bæta að Danir eru nú að undirbúa frv. til laga um veiði og stjórn villtra dýrastofna þar sem lagt er til að réttur til fuglaveiða í danskri landhelgi verði takmarkaður við þá sem lögheimili eiga í Danmörku enda sé ekki um að ræða veiðar í atvinnuskyni. Breyting þessi er m.a. rökstudd með tilvísun í Rómarsamninginn.``
    Ég hefði talið eðlilegt fyrst Dönum er þetta kleift að við gerðum það sama og settum lög um það að aðeins þeim sem eiga hér ríkisborgararétt verði leyft að veiða í íslenskum almenningi.
    Svo eru veiðar í atvinnuskyni. Ég vil taka undir það sem fram kom hér áðan hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það er orðið meira en lítið alvarlegt mál ef erlendir menn geta sett hér upp fyrirtæki og auglýst gæsa- og rjúpnaveiðar í almenningi og fengið hingað erlenda menn í þessu skyni.
    Nú er mér að sjálfsögðu kunnugt eins og öðrum að til eru þeir einstaklingar sem stunda sérstaklega rjúpnaveiði og kannski eitthvað gæsaveiði í atvinnuskyni en ég kannast ekki við nein fyrirtæki sem það gera. Ég held satt að segja að það sé þess virði að athuga hvort ekki er unnt að banna það með almennum lögum sem ná til allra. Heimila má einstaklingum a.m.k. í sínum heimalöndum að stunda slíkt þó að það yrði bannað t.d. á almenningi að stunda slíkar dýraveiðar í atvinnuskyni. Okkur hlýtur að vera það heimilt að láta það ná til allra.
    Ég vil stinga þessu að hæstv. ráðherra því að ég veit að honum er áreiðanlega ekkert síður kappsmál en mér og fleirum að halda þessu sem mest innan okkar íslensku heimildar og lögsögu.
    Ég hlýt jafnframt að gagnrýna það að leggja fram frv. sem er svona opið. Sem sagt er ráðherra heimilt með reglugerð að undanþiggja frá þeim skilyrðum sem hér er verið að tala um þó honum sé jafnframt heimilt að setja skilyrði um búsetuskilyrði. Og ég held að það væri miklu betra að drífa sig bara í það að flytja frv. eins og Danir eru að gera. Er það nokkuð mikið verk? Ég er sannfærður um það að hæstv. ráðherra fengi mikinn stuðning við það að koma slíku máli fljótt í gegn.
    Hæstv. ráðherra vísaði í frv. sem var flutt í fyrra og var hér mikið rætt og er að koma fram að nýju. Ég fagna því. Ég held að það þurfi, eins og ég sagði þá, að setja reglur um veiðar. Þó ég væri ekki sáttur við þær eins og þær voru þar skrifaðar þá fagna ég

því. Það er áreiðanlega mjög mikil nauðsyn á slíku en ég held að við eigum ekki að bíða eftir því og bara drífa fram frv. eins og ég hef sagt og Danir eru að gera og jafnframt banna veiðar í atvinnuskyni í almenningi.