Afstaða Landsvirkjunar til lækkunar orkuverðs

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:30:20 (1678)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir afar greinargóð svör hans og jafnframt fagna því að hæstv. ráðherra hefur beitt sér mjög fyrir því að reyna að fá Landsvirkjun til þess að taka frekari þátt í jöfnun orkukostnaðarins.
    Það hefur alveg legið ljóst fyrir frá upphafi þegar farið var að ræða hvernig ætti að standa að því að jafna orkukostnaðinn í landinu að til þess að það væri mögulegt yrði Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti að koma inn í það mál. Um þessi mál hafa farið fram ítarlegar umræður á Alþingi, m.a. í síðustu viku sem leiddu sitthvað í ljós.
    Ég ætla ekki að gera þau orð hv. 7. þm. Reykn. að Landsvirkjun sé afturhaldssamasta fyrirtæki landsins að mínum en hins vegar valda viðbrögð Landsvirkjunar við svo eindregnum tilmælum iðnrh. um að taka þátt í jöfnun orkukostnaðar óskaplega miklum vonbrigðum. Ég hafði vænst þess að fyrirtækið mundi taka mjög myndarlega á þessu máli, m.a. vegna þess að manni hafa sýnst vera nokkrar markaðslegar forsendur fyrir því að Landsvirkjun tæki á þessu máli alveg sérstaklega. Það kom fram í skriflegu svari hæstv. iðnrh. við fsp. sem ég lagði fram varðandi málefni Landsvirkjunar á síðasta ári að sala Landsvirkjunar undanfarin ár hefur verið að minnka í kwst. talið. Þess vegna sýnist manni að hér sé um að ræða markaðslegar ástæður líka fyrir því að fyrirtækið reyni að auka hlutdeild sína, m.a. með því að verða betur samkeppnisfært um húshitunarkostnaðinn í landinu.
    Ég vil líka vekja á því sérstaka athygli og árétta að þetta mál, jöfnun orkukostnaðarins í þeim dúr sem lagt var til með umræddri þáltill. sem margoft hefur verið minnst á, er ekki af þeirri stærðargráðu sem oft hefur verið gefið til kynna. Þetta er ekki það stórmál sem stundum hefur verið látið í veðri vaka. Ég vek athygli á því að í greinargerð orkuverðsjöfnunarnefndar kemur fram að hjá þessu stóra fyrirtæki, Landsvirkjun, sem veltir mörgum milljörðum kr. á ári hverju, mundi það ekki þýða annað en að afsláttinn þyrfti að auka um 130 millj. kr. 130 millj. kr. eru auðvitað býsna mikil upphæð, sérstaklega fyrir orkunotendurnar á hinum köldu svæðum en ég trúi því ekki að ekki sé unnt með einhverjum hætti, svo sem lengingu afborgana lána Landsvirkjunar, að koma því þannig fyrir að þetta stóra, myndarlega og vel stæða fyrirtæki geti tekið eðlilegan þátt í jöfnun orkuverðsins í landinu.