Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 13:55:08 (1706)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Staðan í atvinnumálum í landinu er vissulega áhyggjuefni. Ástæðurnar eru margar. Efnahagskreppa gengur yfir Vesturlönd og við förum ekki varhluta af þeirri kreppu. Við það bætist svo aflasamdráttur og misskipting kvótans sem hefur sérstök og óheillavænleg áhrif á Suðurnesjum. Og enn bætist við að við höfum ekki enn bitið úr nálinni vegna óráðsíu undangenginna ára.
    Það vekur athygli að þeir sem harðast hafa barist fyrir brottför varnarliðsins mótmæla nú samdrætti hjá Aðalverktökum þegar dregur úr framkvæmdum varnarliðsins af eðlilegum ástæðum. Ég tek það fram að ég tel vel koma til greina að Aðalverktakar styrki með einum eða öðrum hætti atvinnulíf á Suðurnesjum af þeim auði sem þeir hafa safnað í skjóli sérréttinda sem ríkisvaldið hefur veitt þeim.
    Ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi og krafist sértækra aðgerða. En hvað gerði fyrri ríkisstjórn? Kom hún í veg fyrir sölu skipa og kvóta með sértækum aðgerðum sem voru þó hennar uppáhaldsúrræði? Ekki svo vitað sé.
    Ég fagna yfirlýsingum einstakra þingmanna Reykjaneskjördæmis um að nú þurfi samstöðu, málin leysist ekki með öðrum hætti. Þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa í sínum hóp rætt vandann og fundi

höfum við átt með fulltrúum af Suðurnesjum. Þar hafa menn verið sammála um að engar svonefndar patentlausnir séu til en margt komi til greina.
    Það sem einkum hefur verið rætt er fríiðnaðarsvæði á Suðurnesjum, uppbyggingu við Bláa lónið, bygging ríkisfangelsis í Njarðvík, fjármagnsútvegun til kaupa á þorski úr rússneskum togurum, álversbygging og fleira og fleira. Allt er þetta í athugun hjá ýmsum aðilum og ríkisstjórnin hefur skipað sérstakan starfshóp til að fjalla um vandann í atvinnumálum Suðurnesja eins og hér hefur komið fram.
    Eiríkur Tómasson, útgerðarmaður í Grindavík, hefur bent á að ekki mætti gleyma því sem til staðar væri. Efla bæri fiskverkun, nýta kvótana betur á svæðinu, sameinast um rækjuverksmiðju og fullvinna síld meira en gert er. Undir þessi orð tek ég. Ég læt í ljós þá von að með samstilltu átaki takist að ráða bót á því mikla atvinnuleysi sem við nú upplifum.