Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:05:11 (1711)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Við Íslendingar horfum nú fram á vaxandi atvinnuleysi. Ljóst er að ástandið er misslæmt eftir landsvæðum en verst á Suðurnesjum. Orsakirnar þekkjum við öll, hallarekstur sjávarútvegsins, aflasamdráttur, minnkandi umsvif hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, frestun álversframkvæmda og nú síðast uppsagnirnar hjá Íslenskum aðalverktökum. Suðurnesjamenn og þjóðin öll hafa að vonum áhyggjur af þessu ástandi. Er þá vænlegt að berja lóminn og fyllast svartsýni og bölmóði? Ég segi nei. Það gerir ekki annað en draga kjark úr fólki, fylla það vonleysi og hefta frumkvæði þess til að leita lausna. Við höfum alla burði til að takast á við þennan vanda og sigrast á honum. Ég treysti Suðurnesjamönnum til að hafa frumkvæði í sínum málum. Það hafa þeir þegar sýnt. Þeir hafa kynnt okkur þingmönnum hugmyndir sínar sem eru m.a. nýsköpun í úrvinnslu sjávarfangs, markaðssetning á EES-markað, frísvæði, vegaframkvæmdir, markaðssetning flugstöðvar, innanlandsflug til Keflavíkur, framkvæmdir við sjúkrahúsið í Keflavík, ferðaiðnaður og margt fleira mætti telja. Þessi mál verða rædd á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á morgun og á laugardag.
    Það er alveg víst að hér verður að bregðast við með aðgerðum sem miða að því að tryggja fólki atvinnu til framtíðar og þá duga ekki nein stundarúrræði.
    Samtök aðila vinnumarkaðarins vinna nú að víðtækum tillögum í atvinnumálum í samvinnu við ríkisstjórnina og hefur ríkisstjórnin þegar ákveðið að verja 3,5 milljörðum í atvinnuskapandi aðgerðir í landinu á næstu þremur árum. Þingmenn Reykjaneskjördæmis, sveitarstjórnarmenn og athafnamenn á Suðurnesjum vinna að málinu. Við munum finna úrræði þegar allir leggja saman og vinna af heilindum að farsælli lausn. Þá lausn er ekki að finna í flugeldasýningum í fjölmiðlum.