Gjaldeyrismál

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 13:58:41 (1766)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. vék sér undan einni spurningu minni, þ.e. hvort hans viðhorf til tengingar við ECU séu þau sömu og voru á síðasta þingi. Hæstv. ráðherra sagði einnig að stöðugt gengi væri markmið ríkisstjórnarinnar og einn af hornsteinum efnahagsstefnunnar. Þá vil ég í framhaldi af því spyrja hæstv. ráðherrann hvort hann telji að Seðlabankinn sé í stakk búinn til að verja gengið, eins og það er í dag, ef búið væri að taka upp markaðsskráningu þannig að það mundi ekki strax slá niður í neðri mörk. Ég hlýt að skilja hans orð svo að hann telji að við hljótum að verða með mörk eins víð eins og þau gerast í Evrópu, 5--6%. Ef ekki koma til á allra næstu dögum og vikum róttækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum meðan viðskiptajöfnuðurinn er enn jafnóhagstæður og hann er nú þótt vöruskiptin séu orðin í skárra lagi, þá hlýtur, ef markaðskerfið ræður, þetta mikla framboð á gjaldeyri að verða þess valdandi að við missum gengið niður í neðri mörkin á mjög skömmum tíma.