Fréttaflutningur af slysförum

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:36:50 (1775)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Eins og aðrir sem talað hafa á undan mér vil ég taka undir till. sem hér var flutt og lýsa yfir stuðningi mínum við málið. Eftir að hafa upplifað slíkt sjálfur tel ég að óvarkár fréttaflutningur af ógæfu fólks geti aukið á sorgina og lengt sorgartímabilið verulega þannig að nauðsynlegt er að settar verði sem fyrst leikreglur um það hvernig staðið yrði að fréttaflutningi og upplýsingaskyldu þegar ógæfu ber að höndum og farið yrði eftir þeim.
    Ég vil benda flm. á hvort ekki sé skynsamlegt að setja tímamörk á nefndarstarfið þannig að nefndin skili niðurstöðum sínum innan tiltekins tíma. Ég tel að það sé yfirleitt betra að hafa slík tímamörk. Það bindur nefndina innan ákveðins ramma og verður til þess að málið kemur fyrr úr vinnslu en ella. Ég bendi hv. flm. á þetta og mun mæla fyrir því í hv. allshn., þar sem ég á sæti, að athuga það í samráði við 1. flm. hvort ekki sé skynsamlegt að breyta till. í þá veru að setja inn í hana dagsetningu.