Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:18:21 (1825)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir hóf mál sitt á því að segja að hann væri ekki mjög bjartsýnn. Ég hef mikinn skilning á því að hv. þm. skuli ekki vera mjög bjartsýnn eftir að Framsfl. er búinn að sitja í ríkisstjórnum samfellt í 20 ár og skila þeirri niðurstöðu sem blasir við okkur hér á höfuðborgarsvæðinu í þeirri geysilegu opinberu stofnanauppbyggingu sem blasir við og Framsfl. öðrum flokkum fremur ber ábyrgð á, með skattpeningum borgara utan af landi jafnt sem borgara á höfuðborgarsvæðinu. Ég skil það mjög vel í ljósi þessarar reynslu að hv. þm. sé ekki bjartsýnn eftir að svona er búið að standa að málum í 20 ár. En við erum að reyna að breyta um stefnu þó að Framsfl. sé ekki með í stjórn. Hann er þó með í þessari nefnd og ég fagna því. Hann tekur þátt í þessu starfi af miklum heilindum og leggur þar mjög margt gott af mörkum og þar ríkir mjög góð og einlæg samvinna sem ég vona að muni skila árangri. Þess vegna er ég bjartsýnn m.a. vegna þess að Framsfl. tekur þátt í þessu starfi af fullum heilindum. En ég skil það vel að hv. þm. sé ekki bjartsýnn vegna þess að hann skoðar reynslu sl. 20 ára og hún er ekki glæsileg, hvorki fyrir landbyggðarfólk né fyrir Framsfl.