Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:45:57 (1832)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég efa ekki að fullur vilji sé hjá þeim sem nú fara með völd að reyna að ganga þannig frá málum að sá eftirlitsmaður sem á að vera um borð í hverju veiðiskipi geti fylgst með því að það veiðiskip fari að réttum reglum. En það segir ekkert um að önnur veiðiskip sem eiga að vera utan landhelginnar fylgi ekki í kjölfarið inn ef enginn er til að fylgjast með því. Og það er einmitt þetta sem er til umræðu. Það er verið að gefa það út að eitt varðskip ásamt einni flugvél eigi að annast eftirlitið.
    Ég segi það satt að það gladdi mig þegar ég heyrði hv. 3. þm. Reykv. tala um að það þyrfti að standa myndarlega að Landhelgisgæslunni og það gengi ekki að í fjárlögum væri svo þrengt að henni að þetta markmið næðist ekki. Það gladdi mig að heyra það og það gladdi mig líka að heyra að það er búið

að eyða þeim misskilningi að hugsaðar hafi verið einhverjar sértekjur fyrir Landhelgisgæsluna, að hún ætti að fara á frjálsar veiðar til að afla sér tekna, eða hvernig það var hugsað.
    Yfirlýsing hv. 3. þm. Reykv. liggur fyrir á þann veg að hann telji að það verði að nota skattpeninga þjóðarinnar til að framkvæma þetta. Þá kemur seinni hlutinn. Þá gengur dæmið ekki upp. Það gengur ekki upp að flytja svona fyrripart og lýsa því svo yfir að hv. þm. ætli að bera fulla ábyrgð á fjárlögum sem ganga þvert á það sem þingmaðurinn hefur sagt að væri rétt. Það gengur bara ekki upp.
    Það er ekkert verið að afgreiða það eftir jól eða eftir áramót eða í maí hvaða fé eigi að fara í Landhelgisgæsluna á næsta ári. Það er afgreitt í einni atkvæðagreiðslu í þinginu í desember og það er aðeins þá sem fram kemur hvað menn vilja. Allar fagrar yfirlýsingar um að þeir vilji standa að þessum málum með reisn eru einskis virði, eru nákvæmlega einskis virði ef menn taka ákvarðanir um að skera niður starfsemina með þeim ævintýralega hraða sem verið er að gera að það stefnir í það um aldamót verði engin landhelgisgæsla í landinu. Þá getur náttúrlega vel verið að hafnarsvæðið sé aðalatriðið og menn vilji hafa skipin bundin sem minjagripi.
    Ég trúi því ekki að þeir sem hafa talað til stuðnings þessu máli ætli að láta þá orustu líða án þess að taka þátt í henni þar til fjárlagafrv. kemur fram hvaða upphæðir verða settar í þessa starfsemi. Ég trúi því hreinlega ekki að þeir ætli að láta það gerast að staðið verði að þeim málum eins og búið er að leggja til. Mér er nánast óskiljanlegt eftir það sem sumir menn hafa sagt hér að það verði ekki rætt af fullri festu í þingflokki Sjálfstfl. að þetta gangi ekki upp. Þarna verði menn að breyta um stefnu.
    Ég skil það vel að hv. 3. þm. Reykv. vilji ekki gera neinn óvinafagnað í þessum sal og auglýsa ágreininginn. En ég treysti því að innan veggja þingflokksherbergisins fari það ekkert á milli mála að hann fylkir sér í sveit þeirra manna sem þar eru og munu fara fram á leiðréttingu. Það er ævintýraleg bjartsýni að láta sér detta það í hug að þessi auðæfi nýtist okkur ef við teljum okkur ekki þurfa að hafa hirðusemi á því að reyna að gæta þeirra, það er ævintýraleg bjartsýni. Ég verð að segja eins og er að ég trúi því ekki þegar menn hafa komið hér og sagt með réttu að það sé ekki hægt að vinna þetta verkefni með einu skipi og einni flugvél, að þá sigli menn þann sjó áfram og taki ekki tillit til leiðbeininga manna sem vita hvað þeir eru að tala um í þessum efnum vegna þekkingar sinnar á sjómennsku og á hafsvæðinu í kringum landið. Hér er verið að tala um slíkt alvörumál að það er alveg vonlaust að sitja undir því og líta svo á að hægt sé að afgreiða þetta eins og menn séu bara að leika sér með tölur þegar þeir ákveða að minnka umsvif Landhelgisgæslunnar.