Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:17:21 (1845)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en það sem er þess valdandi að ég stend upp er að mér finnst að hv. 3. þm. Reykv. skuldi okkur nánari skýringu á því sem hann á við þegar hann segir að málefni Landhelgisgæslunnar verði að leysa annars staðar en á vettvangi fjárlaganna. Nú hefur, svo lengi sem ég hef fylgst með, umfang Landhelgisgæslunnar ráðist á hverjum tíma af þeim fjárveitingum sem til hennar hefur verið veitt og einnig náttúrlega af því hversu vel mönnum hefur tekist að spila úr þeim peningum á hverjum tíma.
    Hv. þm. er búinn að lýsa þessu yfir í tvígang og aðspurður hefur hann ekki gefið neina skýringu á því við hvað hann á. Af ræðu hans að öðru leyti um frekara samstarf við varnarliðið um öryggismál er ekki hægt að draga aðra ályktun, meðan hv. þm. svarar ekki við hvað hann á, en hann hafi í huga að varnarliðið taki að sér landhelgisgæsluna líka.
    Þetta er sú eina ályktun sem ég get dregið af hans máli og ég verð að fara fram á að hann svari því hér.