Samskipti Íslands og Bandaríkjanna

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:39:37 (1881)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur spurt um kjör og samninga varðandi tækniþróun og flutninga á tækniþekkingu. Svarið er að engir slíkir samningar eru í gildi milli Íslands og Bandaríkjanna en hins vegar eru engar hindranir á þessu sviði og mörg dæmi um að íslenskar og bandarískar rannsókna- og vísindastofnanir eigi mikið samstarf sín á milli.
    Að því er varðar samninga og kjör um aðgang að bandarískum mennta- og vísindastofnunum, þá er það sama svarið. Þar eru engir samningar en aðgangur hins vegar mjög frjálslegur. Engar hömlur opinberra aðila eru á því að Íslendingar geti stundað nám við bandarískar menntastofnanir enda hafa Íslendingar hundruðum saman nýtt sér þau tækifæri og það hefur verið mestur vöxtur í fjölda þeirra sem þangað leita til náms á undanförnum árum. Það er einn samningur í gildi á sviði mennta- og menningarmála

en hann varðar greiðslu kostnaðar á ýmsum menningarmálum.
    Þegar spurt er um það hvort bæta þurfi þessi kjör, þá er meginniðurstaðan sú að það eru engir sérstakir annmarkar sem hafa komið fram í þessum samskiptum milli Íslands og Bandaríkjanna og viðskiptakjörin eru allgóð og á frjálsum grundvelli. Hins vegar er eðlilegt að samskiptaformið sé í stöðugri athugun enda kveðið á um það í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að haldið verði vakandi hugmyndum um fríverslunarsamning við Bandaríkin, Kanada og Kyrrahafslöndin. Ég hef þegar vikið að því að við höfum sett upp undirbúningshóp til þess að undirbúa það mál af kostgæfni og í smáatriðum og eftir því verður leitað, samanber stefnu ríkisstjórnarinnar.
    Að því er varðar áhrif aðildar okkar að EB og viðskipti við Bandaríkin er það fljótsagt að EES er ekki tollabandalag, hefur ekki sameiginlega viðskiptastefnu út á við, hefur ekki sameiginlega ytri tolla og það er ekkert í sambandi við EES sem kemur í veg fyrir það að við getum beint viðskiptum okkar til Bandaríkjanna, leitað eftir samningum við Bandaríkin eða hagað okkar tollum gagnvart Bandaríkjunum að eigin vild. Í nákvæmlega í einni setningu sagt: Ekkert í sambandi við EES torveldar það.