Landbúnaðarstefna

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:20:58 (1903)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þá tilraun til svars sem hann gaf hér. Því miður verð ég að segja að ég er litlu fróðari um hvað það er sem bíður íslenskra bænda, a.m.k. er ekki bjartara fram undan en áður en hæstv. ráðherra gaf svarið.
    Hann byrjaði á að segja að ég hefði farið með ýmsar rangfærslur. Ég vænti þess að þegar hann les þetta betur muni hann sjá að það er ekki rétt með farið því að ég get staðið við hvert einasta atriði sem ég sagði. Því miður lýsir það því hvernig hæstv. ráðherra stendur við það fyrirheit sem hann sagðist hafa gefið um að stuðla að öflugum og fjölbreyttum landbúnaði og að nýjar greinar geti tekið við til styrktar þeim sem niður falla.
    Dæmin þar um eru táknræn. Fjárframlög til skógræktar og landgræðslu lækka frá því sem er í núgildandi fjárlögum þannig að þar er farið beinlínis aftur á bak. Er hægt að kalla það stuðning?
    Eitt fyrirheit var, jú. Að aukinn skyldi innflutningur. Er það stuðningur við íslenskan landbúnað að opna fyrir stórlega niðurgreiddar búvörur erlendis frá á sama tíma og við fellum niður útflutningsbætur?
    Hæstv. ráðherra vildi auka frjálsræði með búvöru. Hann hefur lýst yfir hrifningu sinni á því er bændur koma með skrokka sína undir hendinni og selja hér á bílastæðum. Hvernig yrði það, hvers konar öngþveiti yrði það ef allir bændur færu að haga þannig sölu á sinni vöru? Er það framtíðin sem hæstv. ráðherra sér fyrir sér í sambandi við þetta?
    Hér er auðvitað mörgu við hægt að bæta en tíminn leyfir það ekki. En ég lýsi vonbrigðum mínum því miður yfir þeirri framtíðarlýsingu sem hæstv. ráðherra gaf fyrir íslenskan landbúnað.