Könnun á atvinnuleysi

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:38:48 (1910)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Upplýsingar um atvinnuleysi byggjast ýmist á því hvort fólk lætur skrá sig sem atvinnulaust þar sem atvinnuskráning fer fer fram eða í gegnum vinnumarkaðskannanir þar sem fólk er spurt hvort það sé til ráðstöfunar fyrir vinnumarkaðinn ef það er ekki í vinnu. Því er almennt haldið fram og hefur reyndar einnig verið leitt í ljós víðast hvar að fyrri aðferðin, sem er almennt notuð, gefi yfirleitt lægri atvinnuleysistölur en sú síðari vegna þess að sumir láta eingöngu skrá sig ef það gefur þeim rétt á atvinnuleysisbótum. Einnig er eitthvað um það að ræða að fók telji sig eiga erfiðara með að fá vinnu ef það er skráð atvinnulaust. Síðari aðferðin hefur þannig sérstaklega leitt í ljós hærri atvinnuleysistölur í löndum þar sem fáir fá atvinnuleysisbætur. Þetta gildir t.d. almennt um Portúgal og Grikkland og um atvinnuleysi kvenna í Bretlandi og Írlandi.
    Það að þurfa að skrá sig atvinnulausan til að fá atvinnuleysisbætur er aðalhvatinn til skráningar. Hins vegar hafa vinnumarkaðskannanir líka sínar takmarkanir og geta á sinn hátt ofmetið almennt atvinnuleysi. Þær bæta við ýmsum hópum sem almennt standa utan við vinnumarkaðinn, t.d. námsfólki sem gætu hugsað sér að vinna hlutastarf með náminu, húsmæðrum og fleirum sem gætu hugsað sér einhverja sérstaka vinnu ef í boði væri en slíkar óskir tengjast oft hlutastörfum. Þannig gætu verið til störf sem þessir hópar gætu fengið en vildu ekki þiggja.
    Atvinnuleysi þessara hópa þarf þannig hvorki að vera almennt vegna lítils vinnuframboðs um allt land eða sértækt með tilliti til starfsreynslu og starfsmenntunar þessara hópa, heldur byggja einkum á því að framboð af hlutastörfum er takmarkað í mörgum atvinnugreinum. Þessir vankantar eru mest áberandi þegar atvinnuleysi er lítið eða þegar tekjusamdráttur knýr fleiri til að leita fyrir sér á vinnumarkaðnum en hafa

möguleika á t.d. vegna náms eða ómegðar á heimilinu.
    Einn liður í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands er að kanna atvinnuleysi með þeim hætti sem spurt er um í fyrirspurninni. Hagstofa Íslands hefur gert þrjár slíkar kannanir undanfarin tvö ár. Þá fyrstu í apríl 1991, aðra í nóvember 1991 og þá þriðju í apríl 1992. Hagstofan er að gera nýja könnun í þessum mánuði og niðurstöður úr henni ættu að liggja fyrir innan 1--2 mánaða. Könnun þessi verður gerð a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. í apríl og nóvember, og stefnt er að því að gera könnunina fjórum sinnum á ári þegar nægjanleg reynsla er komin á þessar kannanir.
    Auk fjölmargra upplýsinga um vinnumarkaðinn leiða þessar kannanir í ljós atvinnuleysi á þessum tímapunktum, skipt eftir kyni, aldri og eftir þrem búsetusvæðum, þ.e. höfuðborgarsvæði, kaupstaðir og dreifbýli. Úrtakið í þessari könnun er nú um 4 þúsund manns á aldrinum 16--75 ára og eru þeir valdir úr þjóðskrá. Ætlunin er að stækka þetta úrtak í um 5 þús. manns. Svörunin hefur verið yfir 90%. Spurningarnar eru byggðar á spurningum í samræmdri við vinnumarkaðskönnun hagstofu Evrópubandalagsins sem á að beita í öllum EB-ríkjunum og í EES-samningnum hefur verið samið um að þeim verði einnig beitt í EFTA-ríkjunum.
    Við samningu spurninganna hefur einnig verið leitast við að taka fullt tillit til íslenskra aðstæðna. Í könnununum var fylgt skilgreiningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á grundvallarhugtökum um vinnumarkaðinn. Í þessum skilgreiningum felst að fólk telst vera í vinnu ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í þeirri viku sem könnunin tekur til eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu. Fólk er talið atvinnulaust stundi það ekki vinnu og hafi jafnframt leitað að vinnu undanfarnar 4 vikur áður en könnunin er gerð og sé tilbúið að hefja störf innan tveggja vikna. Samkvæmt EES-samningnum verður að gera a.m.k. eina slíka könnun á ári sem verður samanburðarhæf milli landa.
    Niðurstöður þeirra kannana sem hafa verið gerðar hér á landi hafa m.a. orðið þær að í fyrstu könnuninni í apríl 1991 var atvinnuleysi 1,8% en var 1,4% samkvæmt atvinnuleysisskráningunni. Í annarri könnuninni, sem var gerð í nóvember 1991, var atvinnuleysi 2,7% en var 1,6% samkvæmt atvinnuleysisskráningunni. Í þriðju könnuninni í apríl 1992 munaði nær engu á þessum tveimur aðferðum, en þá var atvinnuleysi 3% og 2,9% samkvæmt skráningunni.
    Æskilegt er að halda könnununum í þessum farvegi hjá Hagstofunni og sem svar við fsp. sé ég ekki á þessari stundu þörf fyrir öðrum sams konar könnunum.
    Spurningarnar sem lagðar eru fyrir í þessum könnunum eru mjög margþættar og úrvinnsla gagnanna gefur marga möguleika til að afla upplýsinga um vinnumarkaðinn. Það er t.d. full þörf á að leggja sérstaka vinnu í það eftir könnunina núna í nóvember að athuga þessi gögn til að fá aðrar upplýsingar um atvinnuleysið en við höfum nú. Sérstaklega þyrfti að athuga samspil menntunar og atvinnuleysis með tilliti til samsetningar við aðra þætti. Athuganir þessara gagna gætu hugsanlega leitt í ljós þörf fyrir sérstakar kannanir eða gefið tilefni til sérstakra aðgerða í starfsmenntunar- og atvinnumálum af hálfu félmrn.