Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:42:29 (1929)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst þau ummæli svolítið lítilsvirðandi sem ég heyrði hjá hæstv. utanrrh. um þjóðaratkvæðagreiðslu, að kalla það bara skoðanakönnun. Ég spyr hann: Ef við hefðum staðið frammi fyrir svipaðri spurningu 1944 og nýtt okkur heimild í lögum var þar þá líka um skoðanakönnun að ræða? Erum við ekki að tala um þær leiðir sem færar eru? Og hvað er hæstv. ráðherra að segja við 34.000 manns sem biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu? Að þeir geti reynt að komast í góða skoðanakönnun. Mér finnst þetta ekki við hæfi.
    Í öðru lagi bendi ég á að ýmsar leiðir eru mögulegar, eins og fram kom í máli ræðumanna áðan, til að bregðast við því ef úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu þeirrar sem hér er beðið um verða með þeim hætti að þau gefi skilaboð sem stangast á við sannfæringu þingmanna. Það eru ýmsar leiðir mögulegar, m.a. hjáseta.
    Í þriðja lagi ítreka ég það enn og það er í rauninni sérkennilegt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera búinn að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að segja upp öllum þeim lagabreygingum sem orðið hafa á samningnum með tólf mánaða fyrirvara heldur einungis þeim ákvæðum sem tengjast samningnum beint.