Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 16:36:18 (1946)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þess umræðu mikið umfram það sem þegar er orðið. Ég kom aðallega upp vegna þeirra orða hæstv. utanrrh. áðan að hér væri ekki verið að flytja tillögu um þjóðaratkvæði eins og hann sagði heldur væri verið að flytja tillögu um skoðanakönnun. Fyrirsögn ályktunarinnar gefur skýrlega til kynna að verið sé að bera málið undir þjóðaratkvæði þó það atkvæði sé ekki bindandi. Ástæðan fyrir því einfaldlega að ekki er flutt tillaga um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu er sú að stjórnarskráin heimilar það ekki, hæstv. ráðherra. Hún heimilar það ekki. Þessi atkvæðagreiðsla hlýtur því í eðli sínu að vera ráðgefandi.
    Menn hafa verið að tala um hefðir og að hefðir séu nánast eitthvað sem ekki megi breyta. Það var talað um að hér væri ekki hefð fyrir beinu lýðræði og þess vegna ættum við ekki að beita beinu lýðræði núna. En þó hefur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla hér á landi sex sinnum á þessari öld. Ef við ætlum að notast við hefðirnar getum við líka sagt að sú hefð hafi skapast í þeim þjóðaratkvæðagreiðslum að þær séu bindandi vegna þess að mér vitanlega hefur Alþingi alltaf farið eftir niðurstöðu þegar hún hefur borið málið undir dóm kjósenda í þjóðaratkvæði. Það er þá hefðin. Ég er fús til að lýsa því yfir að ég mun lúta þeirri niðurstöðu sem yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er tilbúin til að lúta þeirri niðurstöðu hér á Alþingi Íslendinga.
    Hæstv. utanrrh. spurði þeirrar spurningar hvort menn mundu láta af sannfæringu sinni í þessu máli þegar þjóðin væri búin að kveða upp sinn dóm. Og hann spurði hvort við héldum að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mundi láta af sinni sannfæringu eða hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég verð að segja að þar er dálítið ólíku saman að jafna, hæstv. utanrrh. ( ÓÞÞ: Það er ósvífni að vera með þetta í sama ávarpinu.) Það er rétt vegna þess að Hjörleifur Guttormsson, 4. þm. Austurl. er sannfærður um andstöðu sína við samninginn, hefur verið það allt frá upphafi og hefur ekki látið neinn bilbug á sér finna. Það er vissulega virðingarvert að menn séu sjálfum sér samkvæmir gegnum þykkt og þunnt burt séð frá því hver situr við stjórnvölinn. Ég er ekki sannfærð manneskja í þessu máli. Það er vandamálið, hæstv. ráðherra. Ef sannfæring er sama og fullvissa þá hef ég enga fullvissu í þessu máli. Það er í rauninni vafinn sem er mitt hlutskipti í málinu og verður það kannski alla tíð. Það hlutskipti verð ég þá bara að búa við.
    Þegar ég tók til máls um þetta fyrir líklega mánuði síðan lýsti ég því yfir að ég treysti mér ekki til eindreginnar andstöðu við þennan samning. Það var það sem ég sagði. Ég var í rauninni að tilkynna að ég treysti mér ekki til að vera fulltrúi andstöðunnar í utanrmn. Það var það sem ég var að segja, hæstv. ráðherra, og ráðherrann veit það væntanlega hafi hann lesið blöðin. Sem fulltrúi Kvennalistans í utanrmn. hlaut ég auðvitað að gera grein fyrir því, bæði kvennalistakonum og öðrum, að þetta væri mitt hlutskipti. Þetta væri mín staða. Og það skal ég segja ráðherranum að ég hef kvenna og karla líklega bestan skilning á þeim vanda sem það auðvitað skapar fyrir Kvennalistann. Ráðherrann hefur sjálfsagt lent sjálfur í svipaðri aðstöðu persónulega eða með sína þingmenn. Auðvitað skapar þetta vanda fyrir pólitísk samtök, það vitum við öll.
    En ef það hefði komið til álita að ég segði af mér í utanrmn. og ef ég geri það, sem auðvitað er mál sem enn er opið til umhugsunar, verður það vegna þess að ég ákveð það sjálf. Þá er það ekki vegna

þrýstings, sem ég er ekki beitt, í mínum samtökum í þessu máli heldur vegna þess að ég ákveð sjálf að þannig vilji ég standa að málinu.
    Ég spurði ráðherra áðan hvað það þýddi ef við segðum upp samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Hverju værum við þá að segja upp? Ég held að það skipti verulegu máli að fá svör við þessu vegna þess að ef við erum þá að segja upp stofnanaþætti samningsins er hugsanlegt að einhverjir sem eru sáttir við fjórfrelsið sjái í því einhvern möguleika. Mér finnst skipta verulegu máli að fá einhver svör við því hér hverju við segjum upp ef við segjum upp samningnum.
    Þá varpaði ég líka fram þeirri spurningu, sem mér finnst ég ekki hafa fengið svör við, með hvaða hætti menn hefðu hugsað sér að standa að þjóðaratkvæði um aðild að Evrópubandalaginu ef til kæmi. Þetta segi ég vegna þess að hæstv. forsrh. sagði það fyrir síðustu kosningar að ef aðildarspurningin kæmi upp á borðið, þá yrði það vissulega borið undir þjóðina. Nú segja menn að þetta geti ekki verið annað en skoðanakönnun sem ekkert mark sé á takandi og menn verði eftir sem áður að ráða niðurlögum málsins á Alþingi. Með hvaða hætti hafa menn þá hugsað sér að leggja það mál fyrir þjóðina ef til þess kemur? Mér finnst að menn verði að svara því einhverju hér og nú hvernig þeir mundu standa að því máli. Hvernig mundu þeir gera þann dóm þjóðarinnar bindandi? Hvernig vilja þeir tryggja að sá dómur verði bindandi?