Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 16:41:53 (1947)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í þessum umræðum í dag hafa aðallega komið fram tvíþætt rök frá þeim sem hafa andmælt því að þessi tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu verði samþykkt. Annars vegar er það sjónarmið að ef tillagan yrði samþykkt væri verið að opna fyrir það að fram færu þjóðaratkvæðagreiðslur um ýmiss konar önnur lög eins og búvörusamning, fiskveiðistefnu og annað í þeim dúr. Hér sé með öðrum orðum ekki um neitt óvenjulegt mál, EES-samninginn, að ræða. Hins vegar eru þau rök að þingmenn verði að bera ábyrgð á atkvæði sínu og geti ekki skotið sér á bak við þjóðina. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þessi rök sem eru í raun og veru það eina sem fram hefur komið af hálfu talsmanna ríkisstjórnarflokkanna og þar með hæstv. utanrrh. í þessu máli.
    Varðandi fyrra atriðið er það auðvitað mjög athyglisverð staðreynd að ekkert EFTA-ríkjanna hefur treyst sér til þess að afgreiða EES-samninginn með venjulegum hætti. Í engu EFTA-ríkjanna nema á Íslandi á að greiða atkvæði um EES-samninginn eins og um venjulegt lagafrv. Í öllum öðrum EFTA-ríkjum er annaðhvort krafist aukins meiri hluta, yfirleitt að tveir þriðju hlutar þingmanna verði að samþykkja samninginn, eða, eins og er í tveimur EFTA-ríkjanna, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla.
    Það er auðvitað dálítið merkilegt að hæstv. utanrrh. treystir sér ekki í umræðu um það hér hvers vegna hann og ríkisstjórn Íslands eru eini utanríkisráðherra EFTA-ríkis og eina ríkisstjórn EFTA-ríkis sem leggja í að halda því fram að EES-samningurinn sé bara eins og venjulegt lagafrv. og hann sé hægt að afgreiða með venjulegum hætti. Í öllum öðrum EFTA-ríkjunum er það viðurkennt að hér er á ferðinni svo óvenjulegur lagabálkur, svo víðtækur og afgerandi fyrir stjórnskipan og stjórnarfar að það verði að krefjast aukins meiri hluta í þjóðþinginu eða að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.
    Þegar þessi staðreynd blasir við falla auðvitað dauð öll þau furðulegu rök sem hér hafa verið notuð í dag um að þetta sé eins og búvörusamningurinn eða lögin um fiskveiðistjórnun eða eitthvert frv. um aðgerðir í ríkisfjármálum eins og hæstv. utanrrh. sagði áðan.
    Hin tegundin af röksemdum sem hér hefur verið notuð í dag er að þingmenn eigi ekki að skjóta sér á bak við það að greiða atkvæði í málinu. Þess vegna sé ekki hægt að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram vegna þess að ef hún fari fram áður, eins og hv. frsm. Sjálfstfl. í allshn. nefndi áðan, sé hún ekki bindandi. Hæstv. utanrrh. leyfði sér að setja fram það sjónarmið áðan að þá væri eingöngu um skoðanakönnun að ræða.
    Ég notaði tvær mínútur í andsvari áðan til þess að spyrja hæstv. utanrrh. grundvallarspurningar sem honum ber að svara hér á Alþingi. Hæstv. utanrrh. hefur ekki svarað henni enn og ég krefst þess að hann svari þeirri spurningu áður en umræðunni lýkur. Spurningin er þessi: Er hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson sammála því eða ósammála að íslenska þjóðin hafi síðasta orðið um gildistöku EES-samningsins áður en samningurinn tekur gildi?
    Þetta er mjög einföld og skýr spurning. Vill utanrrh. að þjóðin hafi síðasta orðið áður en samningurinn tekur formlega gildi eða ekki? Ef ráðherrann segir nei, hann er á móti því að þjóðin hafi síðasta orðið, þá er það auðvitað afstaða. En hann hefur ekki enn þá lagt í að segja það í ræðustól á Alþingi að hann sé andvígur því að íslenska þjóðin hafi síðasta orðið áður en samningurinn tekur gildi. Hann hefur skotið sér á bak við útúrsnúninga og hártoganir sem byggjast á því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram áður en atkvæðagreiðslan fari fram á Alþingi um sjálft frv. Þess vegna orðaði ég það áðan að ef ráðherrann væri sammála okkur um að þjóðin ætti að hafa úrslitaatkvæði í því hvort samningurinn tekur gildi eða ekki, þá reiknaði ég með að það væri tiltölulega auðvelt að ná samkomulagi um það á Alþingi að frv. um gildistöku EES-samningsins yrði breytt á þann veg að síðasta grein frv. hljóðaði: Áður en frv. tekur gildi skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Verði frv. samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki það gildi. Eða gildisdagur EES-samningsins verði sá dagur þegar meiri hluti þjóðarinnar segir já í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Það þarf enga breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, hæstv. utanrrh., til þess að gera þetta. Það er alger misskilningur eða vankunnátta eða útúrsnúningur. Þetta er mjög einföld, þingræðisleg og eðlileg aðferð. Ef það er sjónarmið hæstv. ríkisstjórnar að þingmenn verði fyrst að greiða atkvæði er ég reiðubúinn til þess að beita mínum áhrifum til þess að ná slíku víðtæku samkomulagi þar sem bæði er hægt að fullnægja því sjónarmiði ríkisstjórnarinnar að þingmenn greiði atkvæði um samninginn --- það er það eina efnislega sem ráðherrann og fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa sagt --- og orðið verði við þeirri kröfu okkar í stjórnarandstöðunni og tugþúsunda Íslendinga að þjóðin fái einnig að segja álit sitt á samningnum áður en hann tekur gildi.
    Þess vegna, virðulegi utanrrh., er óskað eftir skýru svari við þeirri spurningu hvort ráðherrann og ríkisstjórnin vilji veita þjóðinni þennan rétt. Þá þarf ekki að bíða eftir næstu alþingiskosningum eftir tvö ár. Það þarf ekki að hindra það að þingmenn greiði hér atkvæði. Frv. getur gengið í gegnum allar þrjár umræður á Alþingi og síðan fer fram t.d. í desembermánuði atkvæðagreiðsla um hvort þjóðin er sammála þeirri afgreiðslu Alþingis. Sé þjóðin það tekur samningurinn gildi 1. jan. Það þarf enga stjórnarskrárbreytingu eða neitt af því tagi. Það er til einföld, þingræðisleg og skýr aðferð til þess að samræma þessi sjónarmið. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi manndóm og pólitískt hugrekki til þess að svara því alveg skýrt hvað hann vill.
    Til viðbótar þessu tvennu hefur að nokkru verið vikið að því í umræðunni að málið sé mjög flókið. Í raun og veru má segja að ef litið er til íslenskrar sögu á þessari öld, þá er málið mjög einfalt. Í íslenskri löggjöf á þessari öld eru fjölmörg atriði í lögum sem enn eru í gildi, sem veita Íslendingum einum margvísleg réttindi á sviði efnahagsmála, atvinnumála, félagsmála og viðskiptamála. Með einni og hálfri línu í 4. gr. þessa samnings og einni setningu eru öll þessi sérstöku réttindi Íslendinga á sviði efnahagsmála, atvinnumála, viðskiptamála og félagsmála afnumin gagnvart 350 millj. manna í Evrópu þannig að 350 millj. manna munu deila þessum réttindum okkar Íslendinga með okkur eftir gildistöku samningsins.
    Mín skoðun er sú að það sé bæði siðferðilega, lýðræðislega og stjórnskipunarlega hæpið ef ekki beinlínis rangt að einfaldur meiri hluti á Alþingi með nokkurra sekúndna atkvæðagreiðslu afnemi þetta allt saman með þessum hætti án þess að spyrja þjóðina hvort hún sé sammála þessu afnámi.
    Ég vil í því sambandi nefna að hvorki núv. ríkisstjórn né neinn þingmaður á Alþingi hefur lagt til að afnema þær aðferðir sem við Íslendingar höfum notað hingað til til að veita mönnum ríkisborgararétt. Alþingi hefur ekki treyst sér til að búa til almennar reglur um það hverjir fái lagalega séð íslenskan ríkisborgararétt. Alþingi hefur heldur ekki treyst sér til að framselja það vald í hendur dómsmrn. eða framkvæmdarvaldsins heldur er á hverju þingi flutt sérstakt frv. þar sem sérhver einstaklingur er nafngreindur sem á að fá íslenskan ríkisborgararétt. ( ÓÞÞ: Allir verða að hafa óflekkað mannorð.) Já, það er út af fyrir sig sjálfsagt og eðlilegt skilyrði að allir hafi óflekkað mannorð, virðulegi þingmaður. En það finnst mér í raun og veru ekki vera athugasemd sem snertir þetta mál heldur er það kjarni málsins að með einfaldri atkvæðagreiðslu á að veita 350 millj. manna meginþorrann af þeim réttindum sem hingað til hafa falist í ríkisborgararéttinum samkvæmt íslenskri löggjöf. Engu að síður á áfram að halda í gildi þeirri skipan að þingið treysti sér ekki ti þess að búa til almennar reglur um það heldur verði að nafngreina hvern og einn.
    Þess vegna er málið mjög einfalt, að spyrja þjóðina, sem í tæpa öld hefur verið að setja í lög og búið við margvísleg ákvæði af þessu tagi, hvort hún sé sammála því að þau séu öll afnumin með einni og hálfri línu í stystu grein þessa samnings. Það þarf engar 10 þús. blaðsíður til þess að nefna einfalt grundvallaratriði sem eðlilegt er að þjóðin fái að segja álit sitt á.
    Þjóðin fékk að segja álit sitt varðandi ríkisborgararéttinn 1918, virðulegi þingmaður, frsm. Sjálfstfl. Og þjóðin fékk að segja álit sitt 1944 varðandi ríkisborgararéttinn, virðulegi þingmaður, frsm. Sjálfstfl. Hvers vegna á þjóðin ekki nú að fá að segja álit sitt varðandi ríkisborgararéttinn, virðulegi þingmaður Sjálfstfl.? Þess vegna er auðvitað samhengi í því að leggja nú til þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisborgararéttinn eins og gert var 1918 og 1944.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. utanrrh.: Er hann sammála því eða ósammála að íslenska þjóðin fái að hafa síðasta orðið varðandi gildistöku EES-samningsins? Ef svarið er já er hægt að finn form í þinginu um lagafrv. sem uppfyllir þau skilyrði. Ef svarið er hins vegar nei er það einfaldlega vegna þess að ráðherrann annaðhvort aðhyllist ekki lýðræðisleg sjónarmið, sem við hin teljum eðlileg, eða hann er hræddur við dóm sinnar eigin þjóðar. Ráðherra sem er hræddur við dóm sinnar eigin þjóðar á einfaldlega að segja af sér.