Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 17:28:58 (1951)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í ræðu hv. 2. þm. Vestf. hefur málflutningur stjórnarandstæðinga að mínu viti risið hæst. Hv. þm. þótti við hæfi að bera utanrrh. þeim brigslum að hann vildi svíkja ættland sitt í tryggðum en færði honum það til afbötunar að landráðamaðurinn væri drykkjusjúklingur og því væntanlega ekki sjálfrátt. Þetta tekur jafnvel fram frægum ummælum hv. 8. þm. Reykn. sem svaraði forsrh. á þá leið að hann væri haldinn skítlegu eðli.
    Ég spyr, virðulegi forseti á Alþingi Íslendinga, hver er málstaður manna sem lúta svo lágt í málflutningi? Ég viðurkenni það að hverjum þeim sem verður fyrir svo ærumeiðandi brigslyrðum úr ræðustól á Alþingi af manni sem nýtur þinghelgi verður svarafátt og hann á kannski erfitt um varnir. Ég hlýt þess vegna að treysta því að málflutningur af þessu tagi dæmi sig sjálfur og vísa því að öðru leyti til forseta hvort hann telst samboðin sóma Alþingis.