Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:05:47 (1967)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þáltill. fjallar um eitt stærsta vandamálið sem nú er að skapast í samfélaginu, atvinnuleysi. Þrátt fyrir ýmiss konar hremmingar svo sem aflasamdrátt og verðsveiflur á mörkuðum okkar er það fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvort atvinnuleysi verður lítið eða mikið á næstunni. Það skiptir máli hvort stjórnvöld eru reiðubúin til að standa að arðbærum atvinnuskapandi framkvæmdum eða ekki. Ég er ekki bara að tala um vegagerð þegar ég nefni arðbær störf heldur einnig forvarnastarf í heilsugæslu og fleiri velferðarmál. Það vill gleymast allt of oft að fyrirbyggjandi störf innan menntakerfis og heilsugæslu, á leikskólum og víða annars staðar, eru arðbær fyrir allt samfélagið. Þetta er dálítið alvarleg gleymska.
    Það er eins og stjórnvöld séu núna fyrst að vakna upp við vondan draum og viðurkenna að sums staðar er ástandið orðið svo slæmt að grípa verður til sértækra aðgerða. Þetta viðurkenndi hæstv. forsrh. í utandagskrárumræðu sem við kvennalistakonur efndum til fyrir tíu dögum um atvinnumálin á Suðurnesjum. Nú er að bíða eftir efndunum. Aðgerða er þörf og það strax.

    Það er á ábyrgð stjórnvalda á hvern hátt verður haldið á óhjákvæmilegum samdrætti í fiskveiðum, hvort valin verður ómarkviss gjaldþrotastefna eða álögum létt af fyrirtækjum sem mörg eiga sér lífsvon verði það gert og hvort snúið verður af þessari vonleysisbraut sem við erum á og farið að leggja í rannsóknir, í vöruþróun, í markaðsöflun og farið að byggja upp í stað þess að brjóta niður.
    Ef talað er um sérstaklega að létta álögum af fyrirtækjum, sem ég held að allir séu sammála um að verði að gera með einum eða öðrum hætti, má það auðvitað ekki gerast á þann hátt að byrðunum verði velt yfir á almenna launþega heldur verða þeir að axla þetta sem efni hafa til. Ekki eru öll fyrirtæki jafnilla stödd. Við megum heldur ekki gleyma því. Það vill því miður gleymast í þessari umræðu. Ég er að tala um hátekjuskatt, lúxusskatt á neyslu, fjármagnsskatt og raunverulegar aðgerðir gegn skattsvikum sem gætu skilað okkur því sem þarf og við eigum ekki að sætta okkur við . . .   ( Forseti: Forseti vill biðja um hljóð í salnum á meðan ræðumaður flytur mál sitt.) Ræðumaður tekur undir þetta og þakkar forseta fyrir liðsinnið. Ég var þar komin í ræðu minni að ég var að benda á að við ættum ekki að sætta okkur við að velta enn einu sinni vandanum yfir á láglaunafólkið, þ.e. konurnar með 50.000 kr. í mánaðarlaun. Ég held að þeir sem voru að tala hefðu reyndar alveg eins þörf á að heyra þetta og hverjir aðrir.
    Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að rekja þær hatrömmu deilur sem eru í samfélaginu, a.m.k. innan annars stjórnarflokksins um hvort réttlætanlegt sé að fara svokallaða gjaldþrotaleið í þeirri stöðu sem við erum nú. Mér finnst sú umræða í rauninni fáránleg og sá kostur alveg fráleitur. Hins vegar ætla ég að vekja athygli á því enn og aftur að forsvarsmenn innan ASÍ telja að sú leið geti haft í för með sér gífurlegt atvinnuleysi og heyrst hafa tölur eins og 25% sem er auðvitað stjarnfræðileg tala miðað við það sem við höfum heyrt fram til þessa.
    Kostur þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir er að í henni er ætlast til að horfst sé í augu við að aukning atvinnuleysis er engin lausn á vandamálum dagsins í dag, heldur fyrst og fremst ávísun á stóraukin vandamál morgundagsins. Rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis á heilsufar, félagslegar aðstæður, fíkniefnaneyslu, afbrot, starfsemi neyðarathvarfa og ýmislegt fleira mun tæplega leiða til annarra niðurstaðna hér en gerist í nágrannalöndum okkar. Líklegt er að ofan á bein fjárhagsleg útgjöld af atvinnuleysi í formi atvinnuleysisbóta, sem ekki allir njóta, bætist gífurlegur kostnaður fyrir samfélagið og varanlegur skaði ef ekki verður eitthvað að gert.
    Mér finnst rétt í framhaldi af þessu að benda á atvinnuleysistölur í nokkrum nágrannalanda okkar, ekki síst í ljósi þess að ég held að sumir haldi að nú verði hægt að leysa atvinnuleysisvandann með því að blanda okkar vinnumarkaði enn frekar saman við evrópskan vinnumarkað. Ég held að þetta sé nokkurn veginn eins og menn ætluðu að fara að blanda saman undanrennu og mjólk til að fá út rjóma. Eins og glöggir menn skilja er það ekki hægt. Atvinnuástandið í Evrópu er heldur þunnur þrettándi. Á Ísland hefur það verið í nokkru jafnvægi. Hér hefur ekki verið atvinnuleysi fram til þessa en nú hyggjast menn bæta við atvinnutækifærum með því að komast í bland við evrópskan vinnumarkað. Það er mér óskiljanlegt. Unga fólkinu okkar er nánast lofað því að spennandi atvinnutækifæri bíði innan EES. Ég hlýt að spyrja: Er verið að tala um Danmörku þar sem atvinnuleysið er um 11% og atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 20--24 ára aðeins um 85%? Og þá veit ég ekki betur en litið sé fram hjá þeim sem eru í skóla. Þetta þýðir að þar eru um 15% unga fólksins án atvinnu. Hér er ég ekki með nýjustu tölur heldur staðfestar tölur áranna á undan. Í aldurshópnum 55--59 ára er atvinnuþátttakan um 70%, því við megum ekki bara einblína á unga fólkið. Ekki eru öll þessi 30% sem eru utan vinnumarkaðarins komin á eftirlaun eða veik. Ég trúi því ekki. Þarna er um mikið atvinnuleysi að ræða. Finnland stefnir hraðbyri inn á Evrópska efnahagssvæðið og í faðm EB. Þar er atvinnuþátttakan í aldurshópnum 20--24 ára 75%, þ.e. 25% eru utan vinnumarkaðar. Ef við lítum á eldri aldurshópinn, 55--59 ára, eru liðlega 60% þar sem eru á vinnumarkaði svo næstum 40% eru utan vinnumarkaðar. Ekki eru þeir allir veikir eða á eftirlaunum. Það segir mér heldur enginn.
    Ef við lítum á samsvarandi tölur í Englandi, þá er þar um að ræða hátt í 20% fólks á aldrinum 20--24 ára sem er utan vinnumarkaðar og 34% í aldurshópnum 55--59 ára sem eru þá utan vinnumarkaðar. Þetta er sem sagt aðeins dæmi og ég vel alls ekki verstu dæmin. Þó að þessi séu slæm má vissuleg finna verri dæmi.
    Við þurfum auðvitað ekki að fara aðra leið en við kærum okkur um sjálf en það þarf að sjálfsögðu að taka pólitíska ákvörðun og snúa vörn í sókn. Ég vil benda á nýútkomna OECD-skýrslu um hvað við verjum litlu í rannsóknir og þróun hér á landi. Ég hefði gjarnan viljað vitna aðeins meira í hana en tími minn er úti og m.a. hefur hluti af þeim tíma farið í að sussa á fólk. Hér gengur að sjálfsögðu ekki að setja fé til rannsókna á Íslandi á uppboð einkavæðingarinnar eða binda það einkavæðingu hvort hér verður efnt til einhverra rannsókna. Ríkisstjórnin virðist ætla sér að fjármagna rannsóknir og nýsköpun með hagnaði af sölu ríkisfyrirtækja. Ég held að við verðum að læra af reynslunni. Veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs áttu t.d. að bjarga öllum hafrannsóknum hér. Það hefur ekki gerst og var aldrei raunhæft. Við verðum að vera manneskjur til að beina fé til rannsókna.
    Ég hef lokið því máli sem ég kem hér að en þar sem ég verð nú fyrir truflun veit ég að forseti er mjög umburðarlyndur.