Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:16:04 (1969)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. 17. þm. Reykv. hafi að mörgu leyti komið að kjarna málsins er hann lýsti því að menn binda miklar vonir við inngönguna í EES. Ég held að sú tölfræði sem ég fór hér með, sem því miður var rýr, bendi til þess að engin ástæða sé til að binda þær vonir við Evrópskt efnahagssvæði sem óneitanlega er gert. Ég tel að ástæðan fyrir því að menn eru svo vongóðir sem raun ber vitni sé sú að rekin hefur verið mjög einhliða og að mínu mati mjög villandi áróður um þau tækifæri sem opnast okkur innan EES. Sem betur fer er þar áreiðanlega einhver tækifæri að finna. Ég efast ekki um það. En ég held að þegar mörg lönd ætla að leysa sín atvinnuvandamál með því að fara inn á þennan sama yfirfulla markað, bæði með vöru og vinnuafl, hljóti að gæta samdráttar, alla vega að þarna sé ekki það gull að sækja í greipar í formi atvinnutækifæra sem margir vilja vera láta. Með því að endurtaka það nógu oft að EES sé gott án þess að rökstyðja það með nokkrum hætti hefur það orðið að mjög margir eru vongóðir og halda að þarna sé lausnarorðið að finna rétt eins og áður hafi verið fundin upp önnur lausnarorð. Ég vil þó benda á að innan fiskvinnslunnar eru menn með töluverðar efasemdir um hversu gott sé að tengjast Evrópsku efnahagssvæði. Það eru að vísu mjög mörg atriði sem þar spila inn í. Ég vil líka benda á að í nágrannalöndum hefur gagnrýni af svipuðu tagi og ég var með verið mjög hávær.