Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:50:35 (2002)

     Pétur Sigurðsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri þáltill. sem hér er til umræðu um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis. Miðað við það ástand sem við búum við núna og spár liggja fyrir er þetta verkefni sem þarf að skoða mjög gaumgæfilega með tilliti til lausna sem hægt væri að vinna að fyrir það fólk sem lendir í slíkri ógæfu að fá ekki atvinnu við sitt hæfi í annars góðu þjóðfélagi sem við byggjum.
    Það er auðvitað hægt að setja ýmislegt á skrá og í skýrslur um afleiðingar atvinnuleysis. Þó ætla ég að slíkar upplýsingar verði nokkuð efnislegar og veraldlegar. Í þeirri nauð sem menn verða fyrir þegar þeir missa vinnu sína eða eru settir hjá vegna þess að enginn þarf á þeim að halda þar sem atvinna er ekki í boði hafa menn glatað ákveðnu hlutverki og misst af ákveðnum lífstilgangi.
    Ég sjálfur upplifði það á mínum yngri árum að lenda í atvinnuleysi og ég veit að sú sálarlega tilfinning sem ég upplifði á þeim tíma verður ekki sett á neinar skýrslur eða skrár. Þess vegna held ég að það verði kannski ekki mjög djúpt farið í slíkri könnun og hér er talað um. Aftur á móti hlýtur að verða, miðað við þetta ástand, að skoða gaumgæfilega þá þætti sem þarna eru á bak við og fyrst og fremst með það í huga hvernig hægt er að leysa úr þeim málum.
    Við vitum það og ég hef alltaf haldið því fram að viðmiðun við aðrar þjóðir um atvinnuleysi, að við séum ekki illa staddir vegna þess að atvinnuleysi hjá nágrannaþjóðunum sé meira, er auðvitað firra sem enginn má halda fram. Hér í okkar litla þjóðfélagi eiga allir að hafa atvinnu sem kæra sig um og helst við sitt hæfi. Ég held að einmitt svona lítið þjóðfélag eins og okkar veiti mönnum tækifæri til þess. Það eru ýmsar leiðir í þjóðfélaginu og ýmis verkefni sem við höfum ekki fengist við og ekki tekið á en sem bíða eftir þeim vinnufúsu höndum sem núna eru atvinnulausar. Auðvitað þarf að afla fjár til að slíkt geti átt sér stað. Ég efast ekkert um að í þessu þjóðfélagi er til fjármagn. Ef menn finna réttar leiðir til að sækja það er til fjármagn til að leysa úr því atvinnuleysisböli sem við nú stöndum frammi fyrir.
    Við vitum að hægt er að hugsa sér að hér verði og hefur reyndar verið á undanförnum áratugum ákveðið tímabundið og meira að segja svæðisbundið atvinnuleysi Það er hlutur sem hlýtur alltaf að geta komið upp í veiðimannaþjóðfélagi eins og okkar þar sem við byggjum aðallega á þeim afla sem við drögum úr sjó. Miðað við þessar umræður held ég að það hafi ekki komið nógu vel fram að skýringu á atvinnuleysisvandanum núna, þ.e. þeirri aukningu sem hefur orðið, má að miklu leyti rekja til þess að við megum draga miklu minna úr sjó á þessu ári og aflabrögð eru léleg. Það veldur kyrrstöðu í ýmsum atvinnugreinum og þess vegna meira atvinnuleysi.
    Það er alveg greinilegt og á að vera öllum ljóst að ef við ráðstöfum ekki þeim afla sem við megum draga á land þannig að við fáum sem mest og flest atvinnutækifæri út úr honum hlýtur að blasa við atvinnuleysi, ekki bara í þeirri grein heldur líka hjá þeim þjónustuaðilum sem lifa á undirstöðuatvinnugreinunum. Það getur ekki orðið öðruvísi. Ég held að allir hljóti að vera mér sammála um það. Þar er vinna til að eyða atvinnuleysi.
    Við vitum hvað atvinnuleysi kostar okkur. Það liggur fyrir að hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar okkur 650 millj. kr. Við stefnun nú í 5% atvinnuleysi þannig að menn sjá að það er komið töluvert á fjórða milljarðinn sem það atvinnuleysi sem nú blasir við kostar okkur á ári. Þess vegna hlýtur um leið að

vera nauðsynlegt að menn taki saman höndum til að leiða okkur út úr þeim vanda sem við erum í núna og koma til móts við það fólk sem er atvinnulaust og fjölga atvinnutækifærum í landinu.
    Hér hefur verið vitnað í nokkra þætti í lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég vildi aðeins vekja athygli á nokkrum punktum sem hér komu fram. 1. þm. Norðurl. v. sagði að mikið dulið atvinnuleysi væri hér á landi. Það kæmi ekki fram vegna þess að fólk léti ekki skrá sig jafnvel þótt það ætti rétt á atvinnuleysisbótum. Ég fullyrði að þetta sé rangt. Ég held að íslensk þjóð sé það upplýst og verkafólk almennt að það viti vel hvenær það á rétt og hvenær ekki. Þess vegna held ég að atvinnuleysiskráning fyrir þá sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum á annað borð sé nokkuð rétt.
    Sá hv. þm. sagði líka að menn töpuðu bótum af því að þeir létu ekki skrá sig. Það er auðvitað rétt að menn vinna sér ekki inn réttindi til atvinnuleysisbóta á meðan þeir eru atvinnulausir. Aftur á móti halda þeir fullum réttindum á meðan þeir eru á atvinnuleysisbótum og láta skrá sig.
    Það kom líka fram hjá 1. þm. Suðurl. að réttindi bænda væru ekki eins og þau ættu að vera miðað við það tryggingagjald sem þeir greiddu. Ég vildi aðeins leiðrétta það að tryggingagjaldið er breytt form á gjaldstofni til Atvinnuleysistryggingasjóðs og kemur réttindum ekki við. Enda er í greinargerð fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á innheimtunni mjög rækilega tekið fram að þær breyti á engan hátt þeim réttindum sem fyrir eru í lögum og ekki gefin nein fyrirheit um breytingar á þeim. Aftur á móti vitna menn hér í annað samkomulag við stjórnvöld í sambandi við réttindi til bænda í þessu tilviki. Ég er ekki neinn talsmaður þess að bændur eigi ekki að hafa réttindi ef þeir búa við atvinnuleysi en það er ekki hægt að setja þetta fram á þennan hátt. Það er líka rétt að athuga í þessu samhengi að það er ekkert sjálfgefið að bóndi sem selur sinn fullvirðisrétt komist strax inn á atvinnuleysisbætur. Það hlýtur að vera eitthvað á bak við söluna sem hlýtur að koma til jafns við það sem menn eru að tala um í lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Ég vil aðeins, virðulegur forseti, áður en ég vík úr pontu geta þess af því að það hefur komið hér til tals að fram fer endurskoðun á lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð um þessar mundir. Reyndar er sú endurskoðun ekki komin mjög langt. Menn hafa rekið sig á að ákveðnir þættir í þessari endurskoðun eru vandmeðfarnir. Menn vilja helst láta endurskoðunina fara þannig fram að þar inn í komi allir sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum eða eiga að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Nefndarmenn vilja opna það nokkuð miðað við þann þrönga ramma sem lögin setja í dag.
    Auðvitað þarf að opna þar möguleika eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni. Það er auðvitað útilokað þar sem viðvarandi atvinnuleysi er að eftir 260 daga atvinnuleysi skulu menn ekki eiga neinn rétt á atvinnuleysisbótum í 16 vikur. Það sjá allir hvers konar niðurlæging það er manni sem búinn er að vera atvinnulaus í 260 daga ef hann þarf að fara til sveitarstjórnar til að leita hjálpar í 16 vikur þangað til hann kemst á atvinnuleysisbætur aftur.
    Hér eru mörg önnur atriði sem hefði verið nauðsynlegt að taka á til að koma mönnum í frekari snertingu við hvað er að gerast í þessum málum. En það er búið að boða að hér verði framhaldsumræður og þá vonast ég til að ég geti rætt málið frekar.