Hafnalög

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 16:41:52 (2073)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. var, eins og komið hefur fram, lagt fram til kynningar á síðasta þingi en þá var ekki mjög mikil umfjöllun um það í samgn. Það hafa komið fram nú mjög margar athugasemdir við frv. og á aðalfundi Hafnasambands sveitarfélaga höfðu menn margt við það að athuga og furðuðu sig raunar á því að það skyldi ekki hafa verið tekið til endurskoðunar og breytt í samræmi við það. Ráðherra sagði áðan að til greina kæmi að endurskoða og breyta einhverju í samræmi við þær athugasemdir sem fram hefðu komið. Það er svolítið undarlegt að það skuli samt hafa verið lagt fram óbreytt núna án þess að það hafi verið endurskoðað en mikið af athugasemdum höfðu komið fram.
    Ég ætla að nefna nokkur atriði sem mér finnst athugaverð í frv. og vil taka undir það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði áðan. Það er svolítið einkennilegt sem segir í 8. gr., að eigendur hafna geti samkvæmt þessum lögum verið sveitarfélög eða hlutafélög. Það má líka spyrja að því hvort í raun sé þá rökrétt að ræða um styrki til hafna. Erum við þá farin að ræða um að hægt sé að stofna hlutafélag um hafnirnar og síðan að ræða um styrki til hafnanna líka? Eru það ekki orðnir styrkir til hlutafélaga? Ég vil alla vega gera athugasemd við þetta.
    Það er einnig sagt í 8. gr., sem er sú grein sem tekur á þó nokkrum breytingum, að ráðherra skuli ákveða með reglugerð að höfðu samráði við eigendur viðkomandi hafna að mynduð verði hafnasamlög þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Í máli hæstv. ráðherra áðan kom fram að nú væri verið að ræða um stofnun hafnasamlags á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann nefndi í því sambandi þau sveitarfélög sem þar eiga hlut að máli og að vegaframkvæmdir yfir Hálfdán væru stórt mál varðandi stofnun hafnasamlags, það væri verið að auka og bæta vegasambandið yfir Hálfdán. Það er vissulega rétt og ég tel að það eigi að vinna að því í framtíðinni að stofna hafnasamlög þar sem aðstæður eru fyrir hendi. Ég vil í því sambandi benda á að þær aðstæður eru í dag víða fyrir hendi, bæði hér á Suðurlandinu og eins á Norðurlandi vestra. Ég tel að á þeim stöðum hefði átt að vera búið að vinna að því að koma á hafnasamlögum. Það virðist mjög augljóst mál að þar séu samgöngulegar forsendur þess eðlis að hafnasamlag eigi fullan rétt á sér.
    Hvað varðar þá áætlun sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum að stofna til hafnasamlags vænti ég þess að þau áform, sem hafa nýlega verið kynnt, muni ganga eftir og verði þá fordæmi fyrir þá sem hafa nú þegar öll skilyrði til þess að stofna til hafnasamlags vegna þess að samgöngur milli þeirra eru mjög greiðar.
    Hvað varðar 25% vörugjaldið, sem tekið var upp í fyrra, sem segir í 12. gr. að skuli leggja í Hafnabótasjóð, þá var það nokkuð umdeilt í þinginu á sl. vetri. Vörugjaldið verður vissulega til þess að auka kostnað á flutningi á vörum út á land og af því leiðir að sjálfsögðu líka hærra vöruverð þar. Það er annað mál og má kannski túlka á annan veg í þessu frv. Hér er það túlkað þannig að það muni verða til þess að styrkja Hafnabótasjóð. Ég vil í því sambandi nefna að hafnirnar hafa gagnrýnt það að þurfa að innheimta 25% álag á vörugjald. Það var upplýst á síðasta vetri að það væri mörgum erfiðleikum háð að innheimta þetta gjald og hefur gengið frekar hægt. Það er ekki séð fyrir endann á því að það náist inn.
    Það segir í athugasemdum með frv. að sú breyting sem þarna er gerð sé til þess að álagið muni verða látið renna til lán- og styrkveitinga úr sjóðnum en ekki sem framlag ríkisins til almennra hafnarframkvæmda. Ég sé ekki alveg breytinguna þarna vegna þess að þetta er áfram háð ákvörðunum ráðherra. Þetta er sjóður sem ráðherra hefur í sínu valdi að veita úr. Ég sé því ekki alveg muninn á þessu en það verður sjálfsagt skoðað nánar hvort þetta er eitthvert orðalag sem ekki er alveg skýrt. Ég hef aðstæður til að skoða það nánar í samgn. þegar um það verður fjallað.
    Þær breytingar sem hér eru gerðar á greiðsluþátttöku ríkissjóðs til hafna eru að það fer ekki lengur 75% til hafnarmannvirkja, eins og er í núgildandi lögum, heldur verður því breytt samkvæmt frv. í 90% og 60%. Ég sé ekki alveg hvaða tilgangi það á að þjóna að 90% framlag sé til ytri hafna vegna þess að í dag er raunverulega hægt að fá 90% framlag til ytri hafna. Það er 75% samkvæmt hafnalögum og síðan geta heimaaðilar sótt um 15% framlag úr Hafnabótasjóði. Þá eru þeir komnir með 90% framlag til ytri hafna svo ég get ekki séð að þetta sé nein viðbót fyrir hafnirnar. Aftur á móti hlýtur það að vera skerðing þegar til innri hafna á að vera 60% framlag. Mér sýnist því að ríkið sé að reyna að koma meiri kostnaði yfir á sveitarfélögin í þessu sambandi, að það verði erfiðara um vik fyrir þau að fjármagna gerð innri hafna.
    Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir einstakar greinar í frv. Ég tel ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins. Ég held að við þurfum líka að skoða það að það skuli eiga að fella niður allt ríkisframlag til hafnarvoga, hafnsögubáta og fastra krana. Ég held að það geti komið mjög illa við smærri hafnirnar, sérstaklega þær sem í dag eru ekki búnar að koma sér upp hafnarvogum. Það verður gert að skyldu og er í raun og veru þegar skylda að vigta allan afla sem berst á land í höfnum úti um landið þar sem fiskibátar landa. Það getur orðið erfitt fyrir smærri hafnir að eiga að fjármagna alfarið hafnarvogir, hafnsögubáta og krana til löndunar. Ég held að þetta þurfi að skoða nánar og reyndar heyrðist mér það líka í máli ráðherra áðan að það væri mál sem þyrfti athugunar við. Ég held að það verði ekki til bóta og verði sveitarfélögunum og hafnarnefndum mjög erfitt að eiga alfarið að fjármagna þetta af sínum tekjum.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja frekar um frv. á þessu stigi málsins en mun skoða það í samgn.