Sjávarútvegsstefna

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:54:59 (2164)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Málflutningur hæstv. sjútvrh. er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Hann talar með fullri skynsemi jafnan þegar hann er staddur norðan fjalla. Fyrir stuttu sagði hann að það væri stórkostlegur vandi í sjávarútvegnum og það yrði kannski, ef ekki ekki yrði mörkuð stefna, tekist á um það hvort leggja ætti af 37 byggðarlög. Þar var hann að segja þeim sem hann hefur umboð fyrir og er í vinnu fyrir að hann skyldi berjast með þeim. Það væri tekist á um það í þessari ríkisstjórn að reyna að ná fram stefnu. Hér kemur hann fram og er stefnulaus í dag. Það er nefnilega það sorglega sem Magnús Gunnarsson sagði: Þeir ætla að höggva tærnar af til að lækna höfuðverk. Þessi ríkisstjórn kemst ekki undan því að marka stefnu gagnvart sjávarútveginum og atvinnulífinu í heild. Þess vegna vil ég heyra hér norðanræður hæstv. sjútvrh. og harma það þess að þegar hann er kominn í nánd við hina ráðherrana er allur þrótturinn horfinn, þá er allt í góðu lagi.