Innheimta Pósts og síma

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:32:40 (2182)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Póst- og símamálastjóri svarar þessum fsp. svo:
    Þjónusta eins og sú sem er boðin hér á landi á svokölluðu símatorgi hefur þekkst í öðrum löndum Vestur-Evrópu um nokkurra ára skeið. Miðlun hefur rekið upplýsingasímann 991 000 um þriggja ára skeið og var litið á þann rekstur sem tilraun en nú hafa fleiri aðilar tekið til starfa á þessum vettvangi. Um símatorgið gildir ákveðin gjaldskrá og getur hvaða fyrirtæki sem er nýtt sér þann möguleika að veita upplýsingar í gegnum símkerfið með þessum hætti. Slík þjónusta verður þó að vera innan allra velsæmismarka en að öðru leyti telst það ekki hlutverk Pósts og síma að velja eða hafna þeim sem vilja bjóða þjónustu á símatorginu.
    Vegna eðlis þessarar þjónustu verður hún ekki rekin nema á almenna símakerfinu og Póstur og sími er rekstraraðili þess. Því er eðlilegt að fyrirtækið sjái um að innheimta gjöld fyrir þá sem bjóða þjónustu á símatorginu.
    Yfirstjórn Pósts og síma er ljóst að setja þarf ákveðnar reglur um starfsemi af þessu tagi og verða þær gefnar út á allra næstu dögum. Í þeim mun koma fram að hægt verður að bjóða þvílíka þjónustu í fimm mismunandi gjaldflokkum og verða þrír dýrustu flokkarnir aðeins opnir fyrir notendur í stafræna kerfinu. Þeir munu þá geta látið loka símanum þannig að ekki verði hægt að hringja úr honum í símatorgið.
    Hingað til hefur Póstur og sími ekki aðgreint gjald fyrir hringingar í númer á símatorginu frá öðrum símakostnaði notenda. Slík aðgreining er heldur ekki möguleg í hliðræna símakerfinu. En í stafræna kerfinu, sem nær til um helmings landsmanna, er hægt að biðja um sundurliðað símreikninga og þá er hægt að sjá kostnað við öll dýrari símtöl en venjuleg innanbæjarsímtöl. Það er einnig til athugunar innan Pósts og síma að tilgreina sérstaklega á hverjum símreikningi innan stafræna kerfisins heildarkostnað við hringingar í númer á símatorginu. Ef af slíkri sundurliðun verður er hugsanlegt að ekki verði lokað fyrir venjuleg símaafnot þótt símnotandi skuldi vegna hringingu á símatorgi en slík framkvæmd yrði ýmsum vandkvæðum bundin.
    Þegar síma er lokað vegna ógreiddra reikninga 45 dögum eftir gjalddaga er alltaf lokað fyrir hringingar úr og í viðkomandi númer, enda hefur hliðræna kerfið ekki boðið upp á annað.
    Að lokum: Það öryggi sem fæst af því að hafa síma tengist aðallega þeim þætti að hægt sé að hringja úr honum til að láta vita af sér frekar en því að hægt sé að hringja í viðkomandi. Því hefur það ekki komið til álita að loka einungis símanum í aðra áttina.
    Fyrir Póst og síma er líka mjög erfitt að greina milli öryggisþáttarins og áframhaldandi almennrar notkunar þess sem skuldar símreikninginn.