Sementsverksmiðja ríkisins

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:37:48 (2261)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég saknaði þess dálítið að hæstv. ráðherra skyldi ekki svara betur þeim spurningum sem komu fram t.d. um biðlaunaréttindin og hvers vegna þetta frv. er lagt fram án þess að gera breytingar frá því í fyrra. Það liggur fyrir undirskrift ríkisstjórnarinnar á því plaggi sem varð til í viðræðum hennar við aðila vinnumarkaðarins í fyrravetur þar sem því var lofað að hrófla ekki við 14. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Samt koma þessi frumvörp fram með ákvæðum sem hrófla við réttindum þeirra einstaklinga sem eiga þarna hlut að máli. Auðvitað er ástæðulaust að endurtaka það að þeir sem munu taka starfi hjá hlutafélaginu en yrði hugsanlega sagt upp strax eftir að það yrði stofnað missa þessi réttindi.
    Mér finnst að þessi umræða hafi fyrst og fremst leitt í ljós, sem mig hefur reyndar grunað allan tímann og hefur fundist koma í gegnum allar umræður um það að breyta Sementsverksmiðju í hlutafélag, að menn eru ekki að leysa Sementsverksmiðjuna úr einhverjum fjötrum. Það er ekki það sem menn eru að hugsa um. Menn eru ekki að velta fyrir sér rekstri fyrirtækisins. Áhuginn er af allt öðrum ástæðum til kominn. Hann getur ekki verið af neinum öðrum orsökum en þeim að menn vilji selja fyrirtækið og menn vilji standa við það sem stendur í Hvítu bókinni. Vitanlega vita menn að það mun ekki þurfa nema einfaldar samþykktir á Alþingi þar sem kannski yrði tekin afstaða til margra mála, þ.e. að ráðherrum yrði heimilt að selja hlutabréf í eftirfarandi ríkisstofnunum ( ÁJ: Bara í einum pakka.) í einum pakka, einmitt hv. þm. Árni Johnsen, og væntanlega mundir þú rétta upp höndina.