Hönnunarvernd

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:45:51 (2266)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um hönnunarvernd sem er á þskj. 253. Eins og heiti frv. ber með sér tekur það til verndar hugverka á sviði hönnunar. Með hönnun samkvæmt frv. er átt við útlit og gerð vöru og skreytingu hennar. Rúm 30 ár eru frá því að farið var að ræða þörf á lagasetningu um hönnunarvernd hér á landi. Frv. hefur þó ekki fyrr verið lagt fram á Alþingi.
    Með samningu frv. var einkum stuðst við tillögur og hugmyndir um hönnunarvernd sem settar voru fram í svokölluðum ,,Green paper`` 1991 á vegum Evrópubandalagsins en sú greinargerð hefur verið til umfjöllunar í ríkjum Evrópubandalagsins og EFTA frá þeim tíma. Stefnt er að því innan Evrópubandalagsins að leggja fram frv. sem byggir á þeim tillögum. Með þessu frv., sem nú lítur dagsins ljós, skipar Ísland sér í röð frumherja á þessu sviði.
    Þörfin fyrir skráða hönnunarvernd hefur orðið æ ljósari með hverju árinu sem líður. Þar kemur ekki síst til stöðugt vaxandi þáttur hönnunar í markaðssetningu og viðskiptum. Íslenskir hönnuðir og framleiðendur verða í þessu efni að eiga völ á sambærilegri vernd á hönnun sinni og líkur eru á að lögfest verði í helstu viðskiptalöndum okkar. Í flestum iðnríkjum njóta hönnuðir og framleiðendur skráðrar mynsturverndar.
    Hönnunarvernd tekur til heildarútlits vöru og skreytingar vöru. Einungis hönnun sem er sérstæð frá sjónarhóli kunnáttumanna og almennings getur notið verndar. Hönnunarvernd getur annaðhvort byggt á skráðri vernd eða óskráðri samkvæmt frv. Óskráð hönnunarvernd gildir í tvö ár en skráð vernd getur verið í gildi í samtals aldarfjórðung. Ástæða þess að frv. gerir ráð fyrir tvenns konar verndarformi er sú að annars vegar er þörf á vernd vegna hönnunar ýmissa tískuvara sem breytast ár frá ári, t.d. í fatahönnun. Á þeim sviðum er aðeins þörf á vernd í mjög stuttan tíma og af þeim sökum ólíklegt að hönnuður vilji leggja í umstang og kostnað til að tryggja vernd sína. Hins vegar er einnig þörf á lengri verndartíma fyrir hönnun sem gildi hefur í langan tíma, t.d. ýmis húsgögn og stærri búnaður. Þegar svo er ástatt er einnig þörf á skýrari afmörkun verndarinnar sem fæst með skráningarkerfinu.
    Einkaleyfastofan mun sjá um framkvæmd laganna og sjá um skráningu hönnunar samkvæmt umsóknum þar að lútandi. Gert er ráð fyrir að umsóknar- og rannsóknagjöld muni standa undir kostnaði við skráningu hönnunarverndar þegar fram í sækir. Hins vegar má gera ráð fyrir að um einhvern undirbúnings- og stofnkostnað verði að ræða við það að innleiða nýtt skráningarkerfi hér á landi. Sá kostnaður réttlætist þó af þörf þeirri sem er á að vernda hugverk íslenskra hönnuða sem og erlendra. Auknir verndarmöguleikar íslenskra hönnuða eru mikilvæg forsenda markaðasetningar á framleiðslu þeirra, bæði hér á landi og erlendis.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja í þessari framsöguræðu nákvæmlega efni allra greina frv. Meginefni þess kveður á um hvaða hönnun getur notið verndar, hvernig sækja skal um skráða vernd og hvaða réttarúrræða handhafar hönnunarverndar geta gripið til. Verði frv. að lögum mun það verða einn þáttur í að búa betur að íslensku hugviti og treysta samkeppnisgrundvöll íslenskrar framleiðslu.
    Við gerð frv. hefur náið verið fylgst með stefnum og straumum í þessum efnum í Evrópu. Frv. er því að meginefni til byggt á reglum sem líklegt er að gilda muni í Evrópu í framtíðinni sem og gildandi norrænum lögum á þessu sviði.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um efni þessa frv. frekar en vísa til ítarlegra athugasemda við frv. og einstakra greina þess. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.