Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 13:56:38 (2271)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér fóru fram í síðustu viku ágætar umræður um þessa þáltill. Er það að vonum því hér er hreyft við mjög brýnu máli eins og kom fram í máli flestra ef ekki allra hv. ræðumanna sem þá tóku þátt í umræðum. Málið er því miður brýnt og það þarf ekki annað til sögunnar að nefna en það að atvinnuleysi í landinu er nú 3% og er vaxandi. Spár liggja fyrir frá mismunandi aðilum um atvinnuleysi á komandi vetri og næsta ári sem verði jafnvel af stærðargráðunni 5--6%, samanber nýlega spá Vinnuveitendasambandsins svo ekki sé minnt á þær hrollvekjur sem einstakir forustumenn í þjóðmálum hafa á undaförnum dögum látið frá sér fara með fullyrðingum um að atvinnuleysi gæti orðið allt að 20--25% ef færi á hinn versta veg. Ég tek fram að ég tel það málinu ekki sérstaklega til framdráttar að vera með hrollvekjuspádóma af þessu tagi enda þarf mikið að ganga á sem betur fer til að ástandið verði svo ljótt. En þó er vert að hafa í huga að jafnvel slíkar tölur hafa verið nefndar í samhengi við hina umfangsmiklu hrinu galdþrota í þjóðfélaginu. Engu að síður er það atvinnuleysi sem þegar er orðið það mesta á öldinni síðan í kreppunni miklu. Jafnvel ljótustu ár viðreisnaráranna í þessu sambandi, árin 1967, 1968 og 1970 eru með mun minna atvinnuleysi á ársgrundvelli en hér er rætt um. Þetta þýðir að 3.500--3.600 manns ganga atvinnulaus eins og fram hefur komið og atvinnuleysið snertir þess vegna beint um 10--15 þús. manns í þjóðfélaginu.
    Ég vil sérstaklega leggja á það áherslu, sem hefur reyndar áður verið nefnt, að þegar aðstæður af þessu tagi koma upp skiptir miklu máli að menn hafi sem allra gleggstar upplýsingar um það sem er að gerast. Ég er þeirrar skoðunar að það skorti nokkuð á að upplýsingaöflun í gegnum skráningu á atvinnuleysi sé með þeim hætti sem æskilegt væri og einnig er upplýsingaöflun takmörkuð vegna skorts á öllum rannsóknum sem atvinnuleysinu tengjast. Það þarf ekki síður að athuga hvernig vinnan dregst saman hjá þeim sem þó hafa enn þá atvinnu en að mæla eða telja fjölda þeirra sem beinlínis ganga án atvinnu.
    Ef menn vilja glöggva sig á því hvernig atvinnustigið í landinu hefur dregist saman er ekki síður nauðsynlegt að skoða það hversu mikið yfirvinna og í raun og veru vinnuumfang almennt í þjóðfélaginu hefur minnkað. Það er ljóst að þegar þetta tvennt er lagt saman, 3.500 atvinnulausir einstaklingar í dag og sá mikli samdráttur sem orðið hefur í vinnu og þar með tekjum fjölmargra á vinnumarkaði þá er hér um mjög alvarlega breytingu að ræða.
    Ég tel að skráningu upplýsinga þurfi að bæta en það þarf einnig að sjálfsögðu að huga að atvinnuleysisbótaréttinum. Þar hafa þegar verið nefndir í umræðunni hópar eins og bændur, sem ekki njóta þessa réttar í dag, og er þó landbúnaðurinn sem atvinnugrein farinn að greiða þau tryggingagjöld sem sérstaklega eru tengd fjáröflun í þessu sambandi. Ég vil í öðru lagi nefna sjálfstætt starfandi atvinnurekendur af ýmsu tagi. Það er ljóst að gildandi löggjöf í þessum efnum mismunar mönnum stórlega þannig að ég tel enga réttlætingu orðið fyrir slíku. Ég nefni sem dæmi sjálfstæða atvinnurekendur í hópi vinnuvélaeigenda annars vegar og vörubifreiðastjóra hins vegar. Staðan er sú í dag að vörubifreiðastjórar eru vegna aðildar Landssambands vörubifreiðastjóra að Alþýðusambandi Íslands aðilar að atvinnuleysisbótaréttinum og fá atvinnuleysisbætur en sjálfstætt starfandi vinnuvélaeigendur sem vinna á nákvæmlega sama markaði og eru gjarnan háðir sömu sveiflum um atvinnu fá ekki þessar bætur einfaldlega vegna þess að þeir eru skráðir sem sjálfstætt starfandi atvinnurekendur og eru ekki aðilar að hinni almennu verkalýðshreyfingu. Þetta er misræmi sem hvað sem öllu öðru líður er auðvitað ófært og þessu þarf að breyta.
    Það mætti margt segja og hefur reyndar verið gert um kostnað þjóðfélagsins vegna atvinnuleysisins. Það liggur fyrir að kostnaðurinn í bótunum einum og tengdum greiðslum er um 700 millj. kr. fyrir hvert prósentustig atvinnuleysis á vinnumarkaði. Sérhverjir 1.100--1.200 einstaklingar sem eru í hverju prósentustigi atvinnuleysis kosta þetta í beinum útgreiðslum bóta. Þá er minnstur hluti sögunnar sagður. Þá er eftir allur sá ómældi kostnaður þjóðfélagsins, sú sóun sem felst í því að viðkomandi einstaklingar hverfa úr verðmætaskapandi störfum yfir í það að gerast bótaþegar vegna atvinnuleysis.
    Ég hygg að ef menn bera þennan kostnað saman við þá tiltölulega litlu fjárfestingu sem í mörgum tilvikum getur verið í því fólgin að skapa ný störf eða halda í störf sem menn eru að tapa geti útkoman úr því dæmi ekki orðið nema ein. Það er efnahagslega skynsamlegt, það er félagslega skylt að gera allt sem hægt er til þess að sporna gegn atvinnuleysi. Ég leyfi mér að fullyrða að í skipasmíðaiðnaðinum væri fyrir brot af því fé sem það kostar að missa hvern mann yfir á atvinnuleysisskrá hægt að halda þeim störfum í landinu. Það hafa farið smíðasamningar upp á milljónir króna, hver á fætur öðrum, út úr landinu vegna þess eins að skipasmíðaiðnaðurinn í nágrannalöndunum er niðurgreiddur sem nemur hluta af vaxtakostnaði lántökunnar vegna smíðanna. Ætli það sé ekki þannig að stór hluti vinnufærra manna í byggðinni við Flekkefjord í Noregi hafi í raun verið á launaskrá hjá Íslendingum undanfarin ár vegna þess eins að smíðaverkefnin hafa streymt úr landinu og þangað vegna vaxtaniðurgreiðslna norskra stjórnvalda?
    Það liggur fyrir að það er hagstæðara þjóðarbúinu að taka innlendum tilboðum í verkefni af því tagi sem skipasmíðar eru þó svo að hin innlendu séu allt að 10--15% dýrari. Fyrir um þremur árum síðan lét ég gera á þessu litla úttekt af tilteknum ástæðum og þá kom það í ljós að innlend tilboð mættu vera a.m.k. 7--10% hærri og það væri samt sem áður hagstæðara að taka þeim. Ef hins vegar atvinnuleysi er í landi og þeir sem ella fengju vinnu við skipasmíðarnar fara yfir á atvinnuleysiskrá verður þessi munur skiljanlega meiri. Þá fá menn tölur á bilinu 11--14% og jafnvel upp í 17% sem það má muna innlendum tilboðum í hag og er samt efnahagslega skynsamlegt fyrir ríki og sveitarfélög og aðra viðkomandi aðila að taka hinum innlendu tilboðum. Af þessu sést að verðmismunur vegna vaxtaniðurgreiðslna sem er e.t.v. á bilinu 50--70 millj. kr. í smíðasamningi á verksmiðjutogara sem kostar 1.200 millj. er hverfandi kostnaður. Það sparar verulegar fjárhæðir, útkoman er jákvæð svo nemur tugum ef ekki hundruðum milljóna beint fyrir ríki og sveitarfélög að leggja þann mismun fram svo ekki sé talað um allt annað sem slíkum málum tengist.
    Ég tek þetta sem dæmi vegna þess að ég tel að í aumingjaskap íslenskra stjórnvalda gagnvart ástandinu í skipasmíðaiðnaðinum endurspeglist kannski hvað best hversu hroðalega sofandi við Íslendingar erum og höfum verið í þessum efnum. Það er algjör aumingjaskapur að hafa tapað þeim hundruðum starfa út úr íslenska skipasmíðaiðnaðinum á undanförnum árum sem við höfum gert þegar það er skoðað í réttu ljósi að í raun og veru er þar um beint efnahagslegt tap þjóðarbúsins að ræða.
    Ég vil, hæstv. forseti, taka undir þessa tillögu, bæði vegna þeirra þörfu aðgerða sem hún gerir ráð fyrir hvað snertir rannsóknir og upplýsingaöflun á þessu sviði og líka vegna þess að það gæti orðið og verður vonandi, ef menn manna sig upp, grundvöllur að því að gera átak í baráttunni gegn atvinnuleysinu.