Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:52:20 (2280)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi áðan varðandi tengsl skóla og atvinnulífs sé fróðlegt til umhugsunar. Ég hygg að skýringin á því liggi fyrst og fremst í því að þó við höfum haldið uppi sæmilegu menntakerfi um langt skeið þá höfum við á sama tíma skorið niður fjármuni til rannsókna. Ég held að tenging skólakerfis við atvinnulíf liggi í gegnum rannsóknir og sú staðreynd að við ákváðum árið 1990 að tvöfalda framlög til rannsókna á tíu ára bili hafi haft það í för með sér að framlög til rannsókna hækkuðu á árinu 1991 um 25% í raunstærðum. Síðan tók við önnur stjórn sem lækkaði framlög til rannsókna verulega, um meira en þessi 25%. Og ef það er eitthvað til í því sem sagt er þegar menn eru að kenna núv. ríkisstjórn um hvernig á þessum málum er haldið þá er það rétt að því er rannsóknirnar varðar. Þar er pottur mjög brotinn, að ekki sé meira sagt og ég tel að það sé í raun og veru alveg grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að ef tengja á saman með árangri skóla og atvinnulíf þá verður að stórauka fé til rannsókna.