Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:00:54 (2284)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við verðum að ræðast hér við, stjórnarandstæðingar. Þeir sitja lítið, stjórnarliðar, undir þessum umræðum. En fyrir það fyrsta, hv. 10. þm. Reykv., þá fór ræða hv. þm. ekkert sérstaklega fyrir brjóstið á mér en málið er bara það að ég hef staðið óbeint í sjávarútvegsrekstri nú um áratug þannig að ég tel mig þekkja orðið sæmilega vel til mála. Við getum rökrætt það varðandi fiskiskipastólinn sem slíkan hvort hann sé of stór eða ekki. Það er matsatriði í dag. Hvar er hann of stór? Það vantar skip til síldveiða og til loðnuveiða. Við þurfum á hverjum einasta dalli að halda til að ná þorskkvótanum. Við höfum verið að fara með hluta af skipastólnum yfir í stóraukna sókn á rækju sem hefur orðið til þess að halda uppi umfanginu í sjávarútveginum núna allra síðustu árin. Við eigum núna varla skip afgangs til að þreifa fyrir okkur með þær nýjungar sem verið er að tala um í útsjávarveiðum þannig að þetta er mikið matsatriði á hverjum tíma. En svo getum við aftur velt því fyrir okkur hvort við megum beita flotanum eins þungt og við gerum núna til að mynda á þorskinn. ( Gripið fram í: Það er óheft sókn í þorskinn.) Það er rétt, það er óheft sókn á þorskinn vegna þess að menn þurfa á hverri fleytu að halda til þess að ná aflanum.
    Ég get alveg tekið undir með hv. þm. þegar hann ræddi um að við þurfum að beita orðið allt annarri hugmyndafræði gagnvart því hvernig á að skipta vinnunni því það er alveg rétt og einnig það sem ég nefndi hér í ræðu minni áðan varðandi tæknivæðingu í sjávarútveginum til að skapa þar meiri arð. Ég sé ekki að það þýði fleiri störf þannig að ég get alveg tekið undir það sömuleiðis þar sem þingmaðurinn nefndi varðandi atvinnustöðu bændakvenna og kannski ekki síst varðandi heimilisstörfin.