Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:18:24 (2286)

     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár. Flm. ásamt mér eru Svavar Gestsson, Árni R. Árnason, Sigríður A. Þórðardóttir, Karl Steinar Guðnason, Valgerður Sverrisdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Björn Bjarnason. Tillgr. ályktunarinnar hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbrh. og umhvrh. að vinna áætlun í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sem miði að því að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs.
    Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.``
    Tillagan er endurflutt og flutt lítillega breytt þar sem nú er lagt til að Alþingi feli landbrh. í stað umhvrh. frumkvæði. Talsverðar umræður urðu um tillöguna við flutning hennar síðasta vetur. Má segja að frá gagnrýnendum tillögunnar hafi borist tvenn ólík skilaboð. Önnur að tillaga sem þessi sé árás á bændur og hin að tillagan sé óþörf þar sem nefnd sé að störfum á vegum landbrh. sem muni fjalla m.a. um þessi mál.
    Ég vísa því alfarið á bug að tillaga okkar sé aðför að bændum á svæðinu þar sem hún miðar einmitt að því að þéttbýlisfólk lifi í sambýli og sátt við búsmalann á svæðinu. Með því að fela landbrh. frumkvæði að framkvæmd málsins nú er m.a. verið að koma til móts við það sjónarmið að sú vinna sem fram hefur farið á vegum þeirrar nefndar sem vísað var til nýtist við áætlunarvinnuna reynist vilji Alþingis á sama veg og okkar flm.
    Það svæði sem nefnt er Landnám Ingólfs er Gullbringu- og Kjósarsýsla, Þingvallahreppur vestan þjóðgarðs, Grafningshreppur, Ölfushreppur, Hveragerðishreppur og Selvogshreppur og brot af Selfosshreppi. Landssvæðið takmarkast af línu sem dregin er úr Hvalfjarðarbotni í þjóðgarðinn á Þingvöllum og þaðan suður Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Ölfusá til sjávar.
    Sérstaða þessa svæðis er mjög mikil hvað varðar búsetuþróun því mikill meiri hluti landsmanna eða um 2 / 3 hlutar býr á þessu svæði. Í Landnámi Ingólfs eru 20 sveitarfélög og yfirgnæfandi meiri hluti íbúa býr í þéttbýli.
    Í Landnámi Ingólfs eru 17 friðlýst svæði sem skiptast þannig eftir gerð friðlýsingar: Einn þjóðgarður, fjögur friðlönd, átta náttúruvætti og fjórir fólkvangar. Þingvallaþjóðgarður er ekki friðlýstur samkvæmt náttúruverndarlögum og er því ekki undir stjórn Náttúruverndarráðs. Með framkvæmd friðlýsingar í þjóðgarðslandinu fer sérstök þingskipuð nefnd.
    Mikill áhugi hefur verið á því á undanförnum árum meðal áhugafólks um verndun og eflingu gróðurs í landinu að þetta svæði verði friðað fyrir lausagöngu búfjár. Í greinargerð með þeirri till. til þál. sem flutt var sl. vetur var m.a. greint frá þeim samþykktum og ályktunum sem settar hafa verið fram.
    Í áskorun, sem send var þingmönnum haustið 1990 og undirrituð af 14 félögum og félagasamtökum, er bent á að samband milli gróðurs og búsetu sé allt annað nú en það var fyrr á öldum. Áður fyrr hafi landsmenn þurft að sækja mest af lífsbjörg sinni beint og óbeint í gróður landsins. Þó hafi gróðureyðing verið miklu minni en síðar varð. Frá landnámsöld sé talið að 2 / 3 gróðurlendis hafi eyðst með öllu og eyðing gróðurs fari hraðvaxandi hin síðustu ár.
    Bent er á að gróðureyðingu verði tafarlaust að stöðva og gróðurvernd og landgræðsla geti skilað miklum árangri með nútímaræktunaraðferðum ef náttúrulegur gróður og jarðvegur hefur ekki eyðst og lögð áhersla á að friðun lands sé ekki stefnt gegn hagsmunum bænda. Þvert á móti muni friðun lands og efling gróðurs bæta hag þeirra. Í niðurstöðu þeirra segir, með leyfi forseta:
    ,,Félagasamtökin, sem stofnuð hafa verið af áhugamönnum um verndun og eflingu gróðurs í landinu, hafa bundist samtökum um að vinna að framgangi þess að Landnám Ingólfs verði friðað fyrir lausagöngu búfjár. Þekking á gróðurástandi þessa svæðis og hnignun gróðurs hin síðari ár er þegar fyrir hendi. Bent er á að semja þurfi um málið við sauðfjárbændur og gera áætlun um fyrirkomulag framkvæmda í einstökum atriðum.``
    Þessi mál hafa reyndar oft áður verið til umræðu á Alþingi og í þingræðu minni sl. vor fór ég yfir helstu áherslur sem birst hafa í eldri þingmálum og las þá einnig upp umsögn Ingva Þorsteinssonar um bann við lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs frá því í febrúar 1991. Þar sagði Ingvi m.a. um viðkvæm svæði, svo sem sandfokssvæði sunnan við Hafnir, í Þorlákshöfn, norðan Þingvalla, Krýsuvík og á Hengilssvæðinu, Grafningi og víðar í Þingvallasveit og um mikinn hluta Reykjanesskagans, sem er hraun með afar þunnum og viðkvæmum gróðri:
    ,,Öll rök mæla með því að þessi svæði séu friðuð fyrir beit og því markmiði er unnt að ná með því að banna lausagöngu búfjár eins og áskorunin til Alþingis leggur til að hafist verði handa um.`` Hann segir síðar að hann telji raunar að fyrir löngu hefði átt að taka á þeim málum, en hins vegar væri rétt á þessu stigi að undanskilja Kjalarnesið og Kjósina á þeim grundvelli að þar er ekki hægt að telja að um umtalsverða gróður- eða jarðvegseyðingu sé að ræða því að gróður á því svæði sé í eðli sínu slitsterkur og

það ásamt fækkun á sauðfé á sl. áratug hafi jafnvel leitt til þess að gróður sé í framför. Þar gildi því ekki sömu rök fyrir banni við lausagöngu búfjár. Þetta skiptir miklu máli um þá áætlanagerð sem lagt er til með þáltill.
    Það eru skiptar skoðanir um að hefta lausagöngu búfjár og stundum dregin sú ályktun að átakapunkturinn sé ábúendur og þeirra stuðningsmenn annars vegar gegn þéttbýlisfólki, vegfarendum og jafnvel umhverfissinnum. Svo einfalt er málið ekki en þó er ljóst að allt of algengt er að bændum þyki umræðu um þessi mál stefnt gegn hagsmunum sínum meðan aðrir telja að í lausn þessara mála felist hagsmunir allra aðila.
    Margir hafa látið skoðun sína í ljós á friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár. Þannig óskaði Skógræktarfélag Reykjavíkur tillögunni skilnings hins háa Alþingis sl. vor og kveðst treysta því að sjónarmið og skoðanir þúsunda ræktunarmanna næðu eyrum virðulegra alþingismanna. Á aðalfundi sínum sl. vor samþykkti Skógræktarfélag Reykjavíkur svofellda tillögu:
    ,,Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur haldinn 27. apríl 1992 samþykkir að stjórn félagsins skuli hafa forgöngu um friðun fyrir lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs eða á svæðinu sem takmarkast af Ölfusá, þjóðgarðsgirðingunni og línu sem hugsast dregin frá Meyjarsæti um Hvalvatn í Hvalfjarðarbotn og hafnar verði gróðurbætur og skógrækt á öllu svæðinu á grundvelli heildaráætlunar. Í þessu skyni verði leitað eftir samstarfi við öll skógræktarfélög í landinu, sveitarstjórnir og aðra aðila sem tiltækir eru. Efnt skal til kynningar meðal almennings og hjá fyrirtækjum og stofnunum um þetta mál og áhugi þeirra virkjaður til framgang málsins.``
    Í september barst mér nýtt erindi þeirra þar sem m.a. er hvatt til endurflutnings tillögunnar. Þar segir m.a. að á nýafstöðnum aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, þar sem saman voru komnir fulltrúar um fjögur þúsund félaga í skógræktarfélögum víðs vegar um landið, hafi eftirfarandi tillaga verið samþykkt:
    ,,Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Akranesi í ágúst 1992 vekur athygli á að viðteknar umgengnisreglur í landinu, sem heimila mönnum að láta búsmala ganga lausan nema girðingar hindri, eru að mörgu leyti orðnar úreltar. Einkum er brýnt að taka á þessu máli að því er varðar Landnám Ingólfs, enda er þéttbýli orðið svo mikið á því svæði að lausagangan stendur ræktun mjög fyrir þrifum.
    Þar sem einnig liggur fyrir að minnka þarf framleiðslu sauðfjárafurða telur fundurinn sjálfsagt að hlutast sé til um að lausaganga verði ekki leyfð öllu lengur á svæðinu.``
    Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur einnig skorað á þingmenn og tjáir sig um að aðalverkefni félagsins sé að sjálfsögðu skógrækt og önnur uppgræðsla og landbætur og í því starfi hafi lausagangan valdið ærnum erfiðleikum og geri enn. Skógræktarfélagið segir umrætt svæði fyrir löngu orðið svo þéttbýlt að mjög langsótt sé að hver og einn sem rækta vill og bæta land verði með ærnum kostnaði að girða það og gæta þess fyrir búsmala.
    Það sjónarmið hefur verið sett fram varðandi bann við lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs að þar hafi búskaparhættir breyst svo mjög að ekki sé þörf afskipta af þessum málum. Þar hafi orðið mikil fækkun sauðfjár og jafnframt að framkvæmd búvörusamnings geri það að verkum að smám saman verði slík fækkun að ekki sé aðgerða þörf. Jafnvel er því sjónarmiði hreyft að vegna hins mikla niðurskurðar á svæðinu skapi slík tillaga glundroða og sé árás á Landnám Ingólfs og til þess fallin að skapa ótta hjá þeim fáu ábúendum sem eftir eru.
    Þetta kom fram hjá þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni þegar tillagan var til umræðu síðasta vor. Með þeirri áætlunargerð sem hér er lögð til er fremur verið að tryggja hagsmuni ábúenda á þessu mesta þéttbýlissvæði landsins og verið að tryggja að sveitarfélögin og þar með hagsmunir ábúenda komi að áætlunarvinnunni. Lagt er til að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi og með því er fallist á það sjónarmið að ekki sé æskilegt að setja lagaboð um þetta efni.
    Sveitarfélög fengu með lögum um búfjárhald sem sett voru á sl. vori heimild til að koma í veg fyrir ágang búfjár og að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Mörg þeirra hafa tekið á þessum málum af festu og langar mig í því efni að vísa til nýlegrar samþykktar um búfjárhald fyrir Kópvogskaupstað. Þar hefur verið sett fram það sjónarmið að það hafi verið eðlileg viðleitni mannsins sem alist hefur upp í sveit að reyna að halda áfram búskap þó í smáum stíl sé til þess að létta sér þessar breytingar. Þessar aðstæður hafi hins vegar oft valdið árekstrum vegna ágangs búpenings í görðum og trjáræktarsvæðum. Nú sé runninn upp sá tími að finna þurfi réttan farveg, aðhald og stjórnun þannig að allir megi vel við una, bæði þeir sem stunda búfjárhald og þeir sem ekki gera það. Markmið samþykktarinnar hjá Kópavogskaupstað er að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Kópavogi þannig að búfjárhald í lögsögu Kópavogs sé óheimilt án sérstaks leyfis bæjarstjórnar en í samþykktinni koma fram skilyrði sem þarf að uppfylla til að leyfi fáist. Vörsluskylda er á öllum búfénaði allt árið um kring og ber leyfishafi alla ábyrgð á búfjárhaldi sínu. Ég vek athygli á því að þetta er að sjálfsögðu búfjársamþykkt fyrir kaupstað.
    Með samvinnu við sveitarfélögin eins og hér er lagt til er tryggt að tekið sé tillit til sjónarmiða ábúenda á svæðinu. Það liggur líka í hlutarins eðli að í áætlun sem þessa komi kostnaðaraðgerðir og hlutdeild ríkisins í þeim. Það væru ný vinnubrögð og samábyrgð Alþingis að slík áætlun væri lögð fyrir þingið. Þar með kemur fram vilji stjórnvalda til að viðhalda búskap á svæðinu til þess m.a. að tengja þéttbýli og dreifbýli. Það er mikilvægt fyrir íbúana og verður að vera í ákveðnum böndum.

    Ábyrgð búfjáreigenda hér á landi er minni en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum og hin síðari ár hefur orðið vart vaxandi spennu milli almennings og bænda vegna lausagöngu búfjár, ekki síst vegna umferðarmála.
    Umhverfismál eru þó að fá meira vægi en áður hjá bændasamtökunum og langar mig að grípa niður í ályktun aðalfundar Stéttarsambands bænda frá því í sumar. Þar segir í ályktun, sem er miklum mun lengri, um umhverfismál og kemur víða við ,, . . .  að samstilla þurfi krafta þeirra aðila sem vinna að gróðurvernd hér á landi. Því telji fundurinn að þá reynslu og þekkingu sem fengist hefur við landgræðslu og gróðurvernd undanfarna áratugi beri að nýta samhliða auknum áhuga þjóðarinnar á að endurheimta þau landgæði og gróður sem talið er að hafi eyðst. Mikilvægt er að reynsla bænda á sviði tækni- og ræktunarstarfa verði nýtt bæði við uppgræðslu landsins og viðhalds gróðurs þess. Því telur fundurinn nauðsynlegt að staðið verði við bókun 6 um landgræðslu og skógrækt í stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt frá 11. mars 1991 svo hægt sé m.a. að leggja aukna áherslu á ræktun heimalanda til að létta á beitarálagi á gróðurfarslega viðkvæmum afréttum. Jafnframt því sem bændur verða að gera strangar kröfur til sjálfra sín um umgengni við landið er nauðsynlegt að komið verði til innlendra og erlendra ferðamanna skýrum og einföldum upplýsingum um góða umgengnishætti og þau réttindi og skyldur sem helst getur reynt á í ferðalögum hérlendis. Hins vegar áréttar fundurinn fyrri tillögur um viðhald vegagirðinga og nú síðast aðra tillögu umhverfisnefndar frá sl. ári.``
    Þetta var, með leyfi forseta, ályktun um umhverfismál frá aðalfundi Stéttarsambands bænda. Það kemur fram þarna, eins og svo víða, að flestir eru sammála um að umferð, fólk og fé á tæplega samleið. Sum okkar telja að beitarhólf séu leiðin á meðan aðrir vilja girða vegina af. Ég hafna því ekki að á ákveðnum svæðum geti það verið lausnin að vegagirðingar séu í stað beitarhólfa en það hlýtur að vera niðurstaðan á svo þéttbýlu svæði sem hér að á ákveðnum tíma eigi að stefna að uppbyggingu beitarhólfa fyrir sauðfé.
    Virðulegi forseti. Aðstæður eru afar misjafnar í Landnámi Ingólfs. Við höfum Reykjanesið með sinn viðkvæma gróður, Kjalarnesþing þar sem gróðurskilyrði eru yfirleitt góð og Þingvallasveit þar sem aðstæður eru enn aðrar. Það er sjálfsagt að taka tillit til þess en það er líka orðið löngu tímabært að tengja betur saman ábyrgð og réttinn til landnotkunar. Ég vil að lokum taka undir þau orð að flóra, fána og fólk eigi saman í nánu sambýli þar sem full tillitssemi ríkir.
    Virðulegi forseti. Í samræmi við breytta tillögugrein í þessari till. til þál. um að landbrh. hafi frumkvæðið í málinu legg ég til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til landbn.