Lækkun vaxta

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:51:17 (2307)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í lokaorðum hæstv. viðskrh. að vaxtalækkun væri háð því skilyrði að í engu væri hætt hagsmunum fjármagnseigenda, þ.e. að engu væri hætt gagnvart þeirri verðlagsþróun sem væri fram undan. Þetta er því miður rauði þráðurinn í allri vaxtapólitík hæstv. ríkisstjórnar. Ég bendi einnig á að hæstv. ríkisstjórn hélt því fram á síðasta vetri að allt mundi komast í lag í vaxtamálum ef tækist að draga úr eftirspurn ríkisins eftir fjármagni. Nú hefur komið í ljós að það hefur ekki gerst. Það stefnir í svipaðan fjárlagahalla og verið hefur áður. Hins vegar hefur eftirspurn eftir lánsfjármagni minnkað mikið á markaði en vextir hafa ekki lækkað í neinu samræmi við það.
    Það er vel ef hæstv. ríkisstjórn er að átta sig á því, ef búið er að leiða henni það fyrir sjónir nú síðustu dagana að fleiri þættir hafa áhrif á vextina en akkúrat framboðið. Þar hefur ekkert að mínu mati meiri áhrif en afskriftaþörf fjármálastofnana vegna slæmrar stöðu atvinnulífsins sem ríkisstjórnin hefur frestað í ár að taka á þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins.