Lækkun vaxta

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:52:45 (2308)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. um að ég hafi lýst rauða þræðinum í vaxtastefnu þessarar stjórnar í mínum fáu orðum áðan má það til sanns vegar færa. En þau orð lýstu reyndar líka rauða þræðinum í vaxtastefnu sem fylgt hefur verið undanfarin fimm ár að mínu áliti með góðum árangri. Þeim góða árangri að við höfum náð verðbólgunni niður í lægri tölur en dæmi eru um á lýðveldistímanum með þeim árangri að vextir hér eru nú lægri bæði á mælikvarða nafnvaxta og raunvaxta en í flestum nágrannalöndum okkar. (Gripið fram í.) Það er rangt, virðulegi þingmaður. Þetta eru staðreyndir í málinu og þess vegna get ég alveg tekið undir það sem sagt var. Þetta er rauði þráðurinn í þeirri vaxtastefnu sem hefur m.a. haft þær farsælu afleiðingar að Íslendingar hafa ekki glímt við jafnalvarleg vandamál í sínu banka- og lánakerfi og grannþjóðirnar. Ég vona að það geti orðið framhald á því því það er mikilvægt fyrir heilsufarið í okkar atvinnulífi að lánastofnanirnar séu ekki á hnjánum.