Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 14:12:47 (2310)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér kemur enn einn stór lagabálkurinn sem verður væntanlega vísað til efh.- og viðskn. á þessu haustþingi og er vart bætandi á það sem fyrir er. Það hefur farið svo með tíma okkar nefndarmanna að hann hefur einskorðast fyrst og fremst við vinnu þeirra mála sem eru komin til vinnslu í nefndinni. Því hefur lítill tími gefist til þess að fara í gegnum þau mál fyrir fram sem verið er að vísa til nefndarinnar. Ég mun þó fara örfáum almennum orðum um frv. og bankastarfsemina tengda því.
    Það er rétt, sem hæstv. viðskrh. sagði hér áðan, að á síðasta þingi voru lögfestar nýjar eiginfjárkröfur til bankanna. Þær kröfur eru þess efnis að það er rétt með naumindum að þeir ná því í dag að uppfylla þær. Það setur m.a. að mínu mati sitt mark á þá baráttu sem nú er háð um lækkun vaxta að bankarnir eru þannig staddir að þeir hafa ekki af öðru að taka en því sem þeir geta náð inn í gegnum vaxtamun á hverjum tíma. Þess vegna er það mjög brýnt, sem ég nefndi í óformlegri fyrirspurn áðan, að tekið verði á vanda atvinnulífsins á þann hátt að óheyrilegar afskriftir hafi ekki óheillavænleg áhrif á vaxtastigið í þeirri glímu sem nú er fram undan.
    Í frv. kemur fram að starfsheimildir banka verða mun víðtækari en nú er og til viðbótar eru komnar mun rýmri heimildir en verið hafa áður í þá átt að bankarnir mega eiga hluti í fyrirtækjum. Þetta allt saman stefnir að því að bankarnir geti orðið virkari aðilar í atvinnu- og efnahagslífi okkar. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sjónarmið að eðlilegt sé að bankarnir finni til ábyrgðar á annan hátt en bara að verja sitt lánsfjármagn gagnvart atvinnulífinu og þjóðfélaginu almennt. En það verður þá að vera liður í nýrri stefnumótun gagnvart atvinnulífinu og gagnvart þjóðfélaginu öllu sem byggist á nánu samráði og samstarfi ríkisvalds, aðila vinnumarkaðarins og fjármálakerfis á hverjum tíma. Því miður sýnist mér á yfirlýsingum hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. síðustu daga að í það minnsta sá armur Sjálfstfl. sé ekkert á þeim buxunum að taka upp vinnubrögð og stefnumótun í þessa veru. (Gripið fram í.) Nú heyri ég að hv. 17. þm. Reykv. hefur ekki fylgst alveg með. Ég náði ekki spurningunni. ( ÖS: Hvaða armur?) Hvaða armur Sjálfstfl.? Ég nefndi að það væri sá armur sem þeir veittu forustu hæstv. fjmrh. og forsrh. og ég held ég skýri það ekkert nánar út. Eins og hv. þm. veit er Sjálfstfl. margarma, hálfgerður kolkrabbi, og þessi armur fer með völdin í augnablikinu, er áhrifamestur og virðist vera búinn að berja til hlýðni við sig jafnvel þá þingmenn sem maður hefði síst ætlað. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég held ég verði að fara fram á það að fá að taka þessar viðræður við hv. 17. þm. Reykv. niður í kaffistofu á eftir eða á einhverjum öðrum vettvangi.
    Síðan kem ég að þeim ásetningi ríkisvaldsins að breyta ríkisbönkunum í hlutafélagabanka. Það er eitt atriði. Annað atriði er að selja þessa banka. Nú kom það ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra en það kemur hins vegar fram í forsendum fjárlagafrv. að meiningin sé að selja ríkisbanka, það sé uppistaðan í þeim 1.100 millj. sem eiga að koma inn á næsta ári í gegnum sölu ríkisfyrirtækja.
    Margt væri hægt að ræða um þetta ekki síst eftir reynslu síðasta árs, ekki hérlendis heldur erlendis. Það er fyrsta spurning til hæstv. viðskrh.: Telur hann að ríkisbanki sem breytt væri í hlutafélagsbanka og væri alfarið í eigu ríkisins gæti takmarkað ábyrgð sína við útgefið hlutafé sem væri þá að öllum líkindum eigið fé viðkomandi banka eins og það væri á þeim tíma? Ég efa stórlega að þetta gengi upp, að ríkið gæti á þann hátt takmarkað ábyrgð sína á ríkisbanka. Þetta tengist einnig þeirri umræðu sem verið hefur uppi síðustu vikurnar í þá veru að í raun geti ríkisvald ekki vikist undan ábyrgð á bankakerfi landsins. Þetta hefur komið fram í Noregi og Finnlandi einnig. Ég vil þess vegna varpa þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hver hann telji að sé ábyrgð ríkisvaldsins á bankakerfinu, fjármálakerfinu, hvort ríkisvaldið geti nokkurn tíma vikist undan þeirri ábyrgð og hvort ríkisvaldið fái það ekki í hausinn þótt seinna verði ef menn ætla að víkjast undan því. Því ef bankakerfið hrynur fer allt atvinnulífið með, svo samtvinnaðir eru þessir þættir. Mér sýnist alla vega að það sé að koma betur og betur í ljós að ein af höfuðskyldum ríkisvalds í hverju landi sé að sjá til þess að þar sé traust fjármála- og bankakerfi.
    Í þessu samhengi hefði ég haft áhuga á að beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort hann telji svigrúm til þess á hlutabréfamarkaðnum á næsta ári að til komi sala á hlutabréfum úr ríkisbönkunum upp á hugsanlega milljarð. Mér sýnist ekkert veita af því að atvinnulífið og þau fyrirtæki sem þurfa virkilega á því að halda að afla sér peninga á þeim hlutabréfamarkaði sem hér er að byggjast upp fái næstu árin að hafa forgang að því fjármagni sem kann að vera á lausu og menn eru tilbúnir til þess að leggja í atvinnulífið á þennan hátt.
    Þá eru hugleiðingar um sparisjóðina. Kannski hefði ég getað verið búinn að lesa mér til um þessa þætti ef ég hefði haft tök á því að fara vel í gegnum frv. Varðandi stofnframlög sparisjóðanna upp á 80 millj. langar mig að spyrja: Verður gerð sú krafa til núverandi starfandi sparisjóða að þeir uppfylli þetta skilyrði eða á þetta eingöngu við um nýja stofnun? Það er eins með ábyrgðarsparisjóðina sem hafa starfað og eiga að breytast innan þriggja ára. Hvaða kröfur verða gerðar þar varðandi stofnframlög? Sparisjóðir hafa að vísu verið að sameinast og sameina krafta sína en víða gegna litlir sparisjóðir veigamiklu hlutverki heima í héraði.
    Það hefði verið freistandi af því að umræðan býður upp á það að taka langa umræðu um vaxtamálin og hvað er að gerast þar þessa dagana. Ég mun ekki gera það nema stikla á örfáum atriðum og fylgja því eftir sem kom fram í óformlegum fyrirspurnatíma áðan. Mér sýnist að ríkisstjórnin hafi á umliðnum mánuðum ekki haft þá yfirsýn sem þyrfti yfir vaxtamálin. Í fyrravetur var sú umræða uppi að ef tækist að lækka ríkisútgjöldin, þá kæmi nánast allt annað af sjálfu sér í peningamálunum. En það gleymdist algerlega að huga að því að staða bankanna, vaxtastaðan, er svo nátengd stöðunni í atvinnulífinu. Það hefur komið í ljós síðustu mánuði að bankarnir halda vaxtamun uppi eins og þeim mögulega er stætt á meðan óvissa er í atvinnulífinu. Meðan ekkert liggur ljóst fyrir um það hvernig eigi að endurfjármagna atvinnulífið munu bankarnir halda vaxtamuni í hæstu hæðum. Það er því væntanlega ekkert mikilvægara gagnvart því að hægt sé að lækka vextina en að endurfjármögnun atvinnulífsins liggi fyrir. Þar er ekkert eitt sem kemur til. Það þarf að lengja lán. Það þarf að grípa til þess ákvæðis, sem er rýmkað í þessu frv., að bankarnir geti átt hlutafé í fyrirtækjum og að menn gangi nú í þessa vinnu þannig að hægt sé að lágmarka afskriftaþörf bankanna.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri en bendi hæstv. viðskrh. á varðandi orð hans um að hann vænti góðs samstarfs við nefndina að ég tel ekkert benda til annars en það geti verið gott. Hins vegar bendi ég á að hér er um að ræða mjög viðamikinn lagabálk til viðbótar við önnur veigamikil störf í nefndinni þannig að það getur tekið einhvern tíma að fara í gegnum þetta allt saman. Í raun er ámælisvert að þetta frv. sé að koma fram rétt rúmum mánuði áður en það ætti að taka gildi. Stjórnarandstaðan var tilbúin til þess strax í vor að vinna eins og þyrfti í sumar að þeirri undirbúningsvinnu sem ríkisstjórnin taldi nauðsynlega vegna Evrópska efnahagssvæðisins, en því miður fór það svo að frumvörpin komu ekki fram og stór og veigamikil frumvörp eins og þetta eru að koma fram nú á síðustu vikum ársins.