Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 15:35:52 (2314)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem ég ætla að gera hér að umtalsefni er tvennt. Í fyrra lagi varðandi vinnubrögð og hversu seint frv. kemur fram. Hæstv. ráðherra útskýrir það með því að það sé vegna þess að frv. hafi verið unnið svo vel í samvinnu við banka og alla hlutaðeigandi aðila. Nú ætla ég ekki að lasta það að lagafrumvörp séu sæmilega undirbúin en ég held hins vegar að það sé miður ef frumvörp eiga að koma hér inn í því formi að Alþingi eigi að hafa nokkra daga til þess að setja stimpilinn, þ.e. það sé búið að vinna það það vel fyrir fram.
    Ég tel að þau vinnubrögð sem hafa verið til að mynda með samkeppnislögin og reyndar frumvörpin um verðbréfaþing, verðbréfasjóðina og kauphallarviðskipti séu að mörgu leyti góð, þau hafi komið til okkar í raun hálfunnin og nefndin þannig unnið með þessum hagsmunaaðilum og ráðuneytinu að frekari úrvinnslu. Það hefur gefið okkur nefndarmönnum í raun miklu betra færi á að meta og taka þátt í starfinu.
    Í öðru lagi er það ein bein spurning. Er það ekki réttur skilningur hjá mér að ríkisbankar séu undanþegnir þeim ákvæðum að aðilar innan hins Evrópska efnahagssvæðis gætu keypt í þeim hlut þegar sá fyrirvari fellur niður, þ.e. gætum við ákveðið að verja a.m.k. einn banka alfarið í eigu Íslendinga með því að

hafa hann áfram ríkisbanka?