Fjáraukalög 1991

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 13:49:53 (2343)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga sem er 197. mál þingsins á þskj. 235. Þetta er frv. til endanlegra fjáraukalaga fyrir árið 1991. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöðutölur sem greiðslur úr ríkissjóði á árinu 1991 umfram þær heimildir sem veittar hafa verið á Alþingi í fjárlögum 1991 og lögum nr. 75/1991, fjáraukalögum fyrir 1991.
    Frv. var lagt fram á Alþingi sl. vor en var ekki afgreitt og er nú endurflutt með lítils háttar breytingum. Þar vegur þyngst að nú er sótt um greiðsluheimild fyrir geymdum fjárveitingum frá fyrra ári en láðst hafði að sækja um þær heimildir í fjáraukalagafrv. því sem lagt var fyrir Alþingi haustið 1991. Fjárln. var strax í vor, þegar málið var til meðferðar þar, gerð grein fyrir þessu atriði. Að öðru leyti verða lítils háttar breytingar á flutningi geymdra fjárheimilda til 1992 og á einstökum liðum með tilliti til endanlegs greiðsluuppgjörs ríkisbókhalds.
    Með frv. að fjáraukalögum, sem var lagt fram á Alþingi í október 1991, fylgdi greinargerð um framvindu ríkisfjármála á árinu 1991 og þær heimildir sem óskað var samþykktar á umframheimildir fjárlaga. Þá var hinn 27. febr. sl. lögð fram á Alþingi ítarleg skýrsla um ríkisfjármál fyrir 1991 þar sem afkoma ríkissjóðs er skýrð í samanburði við áform samkvæmt fjárlögum og útkomu ársins 1990. Í framsöguræðu með frv., sem hér er til umræðu og lagt var fram í vor, var gerð ítarleg grein fyrir efnisatriðum frv. og verður það ekki endurtekið hér.
    Hæstv. forseti. Ég mælist til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjárln. til frekari umfjöllunar.