Fjáraukalög 1991

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 14:38:56 (2348)

     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt um þær lántökur Hafnabótasjóðs vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn sem minnst var á hér af hv. 1. þm. Norðurl. e. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir:
    ,,Með bréfi fjmrn., 25. júní 1951, ákvað ráðuneytið að nýta heimild í lánsfjárlögum um að Endurlán ríkissjóðs veiti Hafnabótasjóði lán að fjárhæð 275 millj. kr. til endurlána vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn. Þá kemur fram að ríkissjóður muni greiða allan lántöku- og vaxtakostnað af láninu og gert er ráð fyrir að lánið greiðist með framlögum af fjárlögum á næstu átta árum samkvæmt bréfi fjmrn. Í ársreikningum bæjarsjóðs Sandgerðis fyrir árið 1991 er fyrrgreint lán ekki fært í reikning bæjarfélagsins í árslok 1991 þar sem bæjarsjóður Sandgerðis telur með réttu að sá kostnaður sem nefnd lántaka á að bera sé alfarið viðfangsefni ríkissjóðs. Ríkisendurskoðun telur í ljósi efnisatriða þessa máls að fyrrnefnd lánveiting frá Endurlánum ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs og síðan til bæjarsjóðs Sandgerðis eigi að ganga til baka. Í stað þess eigi að sýna í fjáraukalögum fyrir árið 1991 og ríkisreikningi fyrir sama ár framlag til Sandgerðishafnar að fjárhæð 275 millj. kr.``
    Það er vissulega þörf á því, virðulegi forseti, að samræma eins og kom fram hjá ráðherra að samræma framsetningu á ríkisreikningi og fjárlögum. Ég gæti svo sem hafa kvatt mér hljóðs og flutt um það langa tölu en hv. þm. Pálmi Jónsson tók af mér ómakið og ég get tekið undir hvert einasta orð í ræðu hans og vil jafnframt að það komi fram að ekki var aðeins um tímaskort að ræða að frv. til fjáraukalaga var ekki afgreitt sl. vor heldur var það einmitt vegna þessa ágreinings um það hvernig frv. væri sett upp og sá ágreiningur var í fjárln.