Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:58:30 (2387)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa fsp. Ég vil að það komi fram við þessa umræðu að öll mál loðdýrabænda í Stofnlánadeild eru í friði. Menn rugla þá saman öðrum handlegg sem eru lífeyrissjóðsskuldir sem gætu verið að angra þá.
    Stofnlánadeild hefur svo til lokið úttekt á stöðu hvers loðdýrabús og er að móta reglu um að viðurkenna töp og hvernig skuli standa að niðurfellingu skulda. Það hafa verið lagðar til hliðar 650 millj. til að mæta þessum vanda og sú upphæð hækkar á þessu ári.
    Ég gagnrýndi það eitt hér um daginn í þessum tilmælum ríkisstjórnarinnar að þar væru menn að hætta fóðurniðurgreiðslunni, sem gengi ekki upp eftir rúmt ár, það yrði að framlengja þann tíma ef búgreinin ætti að lifa, og hefðu ruglað saman í einn pott óskyldum málum. Eitt atriði er að menn sjái til sólar fyrir skuldum sínum. Annað atriði er að þeim sé tryggt að gera tilraun til þess að styrkja búgreinina til framtíðar.