Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:18:06 (2405)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ræða hv. 8. þm. Reykn., Ólafs Ragnars Grímssonar, áðan kom mér ekki á óvart. Hún var af mjög persónulegri gerð. Ég vil taka það fram að ég hóf þessar umræður og hef reynt að taka þátt í þeim án þess að fara út í almennt pólitískt karp um einstök efnisatriði í því alvarlega máli sem er saga loðdýraræktarinnar. Það liggur fyrir að sumir loðdýrabændur eiga um mjög sárt að binda og það liggur líka fyrir að þær reglur sem fyrrv. ríkisstjórn hafði um skuldbreytingu hjá loðdýrabændum í sambandi við Ríkisábyrgðasjóð voru með þeim hætti að þeir sem verst voru staddir og gátu ekki fengið veðleyfi hjá ættingjum sínum fengu ekki skuldbreytingu í gegnum Ríkisábyrgðasjóð þannig að það hefur þegar átt sér stað persónuleg harmsaga hjá mörgum loðdýrabændum og fjölskyldum þeirra en þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin er nú að beita sér fyrir miða að því að þeim þætti ljúki senn þar sem því verður við komið.