Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:12:49 (2446)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það má segja að það sé að bera í bakkafullan lækinn að halda enn eina ræðu um Lánasjóð ísl. námsmanna en þó verður ekki hjá því komist að lýsa yfir stuðningi við þessa sjálfsögðu tillögu því að það þarf ekkert að bíða eftir áhrifum þessara nýju laga, þau eru löngu komin fram. Ég ætla þess vegna ekki að endurtaka allt það sem ég sagði í umræðum þegar það frv. var til meðferðar sem síðar varð að lögum. En það er harla þreytandi að heyra menn endalaust tala um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og hann sé handa einhverjum pakka, einhverjum óræðum pakka. Það er talað um fjölda námsmanna. Við erum að tala um lifandi fólk og ég held að það væri kannski ráð að reyna að fara að endurskoða hvað þessi hugtök, sem menn eru alltaf að nota, þýða ef sjóðurinn á að tryggja það að ekki fari fram mismunun á aðgengi fólks til náms.
    Það sem menn gleyma er að með hertum reglum um námsframvindu svokallaða, menn fá ekki 100% lán nema þeir skili 100% afköstum, þá er auðvitað verið að mismuna fólki vegna þess að jafnrétti til náms er m.a. jafnrétti til þess að ganga illa í námi. Það eru ekki allir jafnfljótir að læra og það er ekki spurning um hvort menn ljúka námi sínu á þremur árum eða fjórum árum. Ég er ansi hrædd um að margur ágætur menntamaðurinn í þessu landi hafi verið lengur en ströngustu tímamörk gerðu honum. ( Gripið fram í: Nefndu dæmi.) Hvað sagði hver? (Gripið fram í.) Ég gæti nefnt ansi mörg dæmi um þjóðkunna Íslendinga sem voru árum saman við nám og tóku aldrei nein próf en hafa gert þessari þjóð meira gagn heldur en flestir aðrir menn og nægir nú að menn rifji aðeins upp Íslandssöguna.
    Þar fyrir utan er þetta álag á nemendum auðvitað óbærilegt. Ég átti þess kost að vera í Bandaríkjunum í hálfan mánuð og hitti þar nokkra stúdenta og m.a unga, einstæða móður sem þar hefur verið í námi um þriggja ára skeið og gengið prýðilega. Hins vegar féll hún á einu prófi um daginn. Það þýðir fyrir hana bókstaflega ekkert minna en það að hún er ekki viss um að hún geti haldið áfram. Auðvitað er þetta gersamlega fáránlegt.
    Ríki nemandinn, sem á ríka foreldra og þarf kannski ekki einu sinni að taka námslán, má vera að þessu eins lengi og hann vill. Er þetta jafnrétti til náms, hæstv. forseti og hæstv. menntmrh.? Nei, það er það auðvitað ekki. Háskólanám er nú einu sinni þannig í eðli sínu að það er ekkert sem menn hrista fram úr erminni fyrirhafnarlítið eða fyrirhafnarlaust þó að menn virðist stundum halda það.
    Annað er það að atriði eins og vinna með námi eru að verða næstum útilokuð. Hér á árum áður komust menn áfram með því að hægja aðeins á náminu, unnu svolítið með því og gátu þess vegna klofið nám sitt. Með þessum óskaplegu 100% kröfum er það aldeilis útilokað og þetta skiptir hvern einasta einstakling máli. Mér er alveg sama hvort menn sitja og telja að það sé einhver árangur að fækka mönnum sem í námi eru. Þetta er auðvitað fráleitt. Við eigum auðvitað að gera allt sem við getum til þess að fjölga fólki í námi.
    Síðan eru auðvitað hafðar uppi alls kyns blekkingar. Framfærsluútreikningur er út úr öllu korti. Það lifir enginn námsmaður t.d. utan af landi á rúmum 40 þús. kr. ósköp einfaldlega vegna þess að íbúðin, sem hann verður að búa í, kostar ekki undir 35 þús. kr. hversu lítil og léleg sem hún er. Og á hverju á þá maðurinn að lifa? Hér er tafla yfir það sem fólk þarf til þess að lifa í hinum ýmsu löndum og það er boðið upp á það að hjón með eitt barn geti lifað af rúmlega 1.000 dollurum í Bandaríkjunum. Ég get upplýst hæstv. ráðherra, og er mér nú málið skylt þar sem ég á raunar námsmann í Bandaríkjunum, að fyrir svona þokkalega íbúð borga menn 850 dollara og þá er ekkert eftir.
    Að lokum, hæstv. forseti, tíminn er því miður mjög takmarkaður en það mætti margt segja. Það gleymast ýmis grundvallaratriði í þessu máli. Eins og alkunna er hafa lán til þeirra nemenda t.d. í Bandaríkjunum, sem hafa fengið greidd skólagjöld í Bandaríkjunum, verið skert um helming. Rökin eru þau að þeir hafi haft það betra heldur en menn í háskólum í Evrópu. Það er alveg rétt. En ástæðan fyrir því að þessir stúdentar fóru til Bandaríkjanna, miklu lengri leið og erfiðari, var að þeir gengu að nokkuð góðum kosti. Þessir nemendur gerðu samning við samfélag sitt. Ég veit dæmi um námsmenn sem áttu kost á ýmsum góðum skólum í Evrópu og góðum skólum í Bandaríkjunum sem kusu Bandaríkin vegna þess að þeir töldu sig komast best af þar. Þetta er bara samningur sem menn treystu og lögðu út í áralangt nám á þeim kostum. Er það verjandi að koma svo í bakið á þessum nemendum sem sumir hverjir eru að ljúka námi, hafa staðið sig frábærlega og segja: Þetta á ekkert að vera svona, þetta á að vera allt öðruvísi. Og enginn spyr auðvitað: Hver á að borga mismuninn? Það geta eflaust einhverjir foreldrar en ekki nærri allir og oft er um að ræða fólk sem er komið vel á þrítugsaldurinn og kannski ekki vel hresst með að fara að leita á náðir foreldra sinna að nýju. Og þannig mætti tæta þetta allt saman niður.
    En að lokum vil ég ítreka að ég tek undir að ofan á vond lög hefur stjórn sjóðsins hegðað sér með ólíkindum og það væri satt að segja hægt að segja margar hárreisandi sögur um hvernig þessir menn sitja og reyna að pilla og plokka af stúdentum það sem þeir mögulega geta. Ég skal sýna hæstv. ráðherra ef hann vill sönnun þess að maður fékk ferðastyrk fyrir hálft barn. Svo langt er gengið að lítil börn eru helminguð áður en greiddur er ferðastyrkur vegna ferða þeirra til annarra landa og við þetta verður auðvitað ekki unað. Og nú trúi ég ekki öðru en að hv. 17. þm. Reykv. sé fyrir löngu búinn að sjá hvernig þetta er að arta sig og útkoman satt að segja skelfileg því að hún á eftir að versna. Fólk er einfaldlega unnvörpum að gefast upp í námi og ég held ekki að hæstv. ráðherra hafi beinlínis verið að vinna að því, því trúi ég ekki.
    En svona á meðan nefndin er að fjalla um þessa tillögu er það eindregin ósk mín að hæstv. ráðherra fari í heimsókn upp í Lánasjóð ísl. námsmanna, í nýtt og stærra húsnæði sem þeir hafa nú fengið, heila hæð til viðbótar eða hálfa a.m.k. því að mikil starfsemi krefst mikils húsnæðis, (Forseti hringir.) og kanni hver völd þessi stjórn er búin að taka sér og hversu svíðingslega er gengið að nemendum. Ég skal ljúka máli mínu, frú forseti.