Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:02:53 (2463)

     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir að vekja máls á þessu máli í þinginu í dag. Vissulega þurfum við að ræða það frekar eins og fram hefur komið. Við erum ekki að binda hér enda á umræður um þetta mál frekar en önnur þau viðfangsefni sem við okkur blasa í utanríkismálum. Mér finnst síðasti ræðumaður, hv. 10. þm. Reykv. í rökstuðningi sínum gegn þessu máli, einmitt hafa komið inn á kjarna málsins. Við þessar breyttu aðstæður í heimsmálum og á alþjóðavettvangi er mjög brýnt fyrir okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir að taka ákvarðanir sem miða að því að laga okkur að þessum breyttu aðstæðum.
    Ég tel einmitt aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu skynsamlegt úrræði á þessum tíma til að

tryggja okkar hagsmuni og gæta okkar öryggis í varnarmálum og öryggissamstarfi við okkar næstu nágranna. Það er ekkert í þessu samstarfi, sem nú er verið að taka upp og hefur oft verið á dagskrá og til umræðu í þinginu, í þingflokkum og í utanrmn., sem skaðar okkar hagsmuni. Það er ekkert í því sem skaðar samstarf okkar við Bandaríkjamenn eða Atlantshafsbandalagið. Þvert á móti er þetta samstarf til þess fallið að treysta öryggi okkar, gefa okkur tækifæri við nýjar aðstæður á alþjóðavettvangi til að vera þátttakendur í nýju samstarfi við okkar næstu nágranna.
    Ég verð að segja að ég sé ekki þær hættur sem menn sjá í því að gerast aukaaðilar að þessu samstarfi. Það kallar ekki á neinar þær skuldbindingar sem brjóta í bága við annað og raskar ekki með nokkru móti okkar öryggishagsmunum, þvert á móti efla þá og teysta.