Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:49:04 (2502)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Utanrmn. hefur rætt þetta mál á fundi sínum og hér hefur komið fram yfirlýsing frá hæstv. utanrrh. Það hefur komið fram að ég tel eðlilegt að ríkisstjórnin og hæstv. utanrrh. frestaði undirritun undir samninginn um aukaaðild af hálfu Íslands á morgun og að málið yrði kynnt á Alþingi Íslendinga og leitað eftir afstöðu þingsins áður en svo ákvarðandi skref yrði stigið af hálfu stjórnvalda. Mál eru komin í aðra stöðu eftir að ríkisstjórn hefur tekið sína ákvörðun og þingið er ekki með sama hætti frjálst að ræða málið og tjá afstöðu sína eins og ef slíkt skef hefði ekki verið stigið. Ég tel hins vegar að það hafi verið komið í veg fyrir stjórnarfarslegt stórslys í kjölfar þeirrar umræðu sem fram fór í dag með því að hæstv. ráðherra hefur gefið til kynna að hann muni láta fyrirvara fylgja undirritun af sinni hálfu og leggja málið fyrir þingið, því ég tel að það hljóti að vera á valdi ráðherra sjálfs að gera það og að hann þurfi ekki að spyrja mjög marga um svo sjálfsagt atriði eins og að leggja stórmál af þessu tagi fyrir Alþingi.
    Því sem hér liggur fyrir verður ekki breytt af hálfu stjórnvalda. Menn hafa lagt orð sín inn í belg utanrmn. um þessi efni og ég þakka ráðherranum fyrir það að hann hefur stigið til móts við sjónarmið okkar stjórnarandstæðinga í þessu máli þó að við vildum hafa séð það með ákveðnari hætti.