Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:33:07 (2526)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. sagði í framhaldi af minni ræðu áðan að ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja allt að 4 milljörðum kr. í hið nýstofnaða eða væntanlega þróunarfélag í formi skuldabréfa sem verða afborgunarlaus næstu þrjú árin og síðan mun þessi sjóður eða þetta félag með tekjustofnum sínum standa undir afborgunum á því. Ég hygg því að þetta framlag verði ekki til þess að auka halla á ríkissjóði enda eru þetta ekki framseljanlegir markaðspappírar heldur ganga til lækkunar skulda skuldugra sjávarútvegsfyrirtækja gagnvart lánardrottnum þeirra og er þess vegna aðgerð til þess að styrkja bankakerfið og fjármálakerfið í landinu.
    Að lokum vil ég taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning, virðulegi forseti, að mér er ekki kunnugt um að hv. 8. þm. Reykn. sé blaðafulltrúi Alþýðusambandsins. Við skulum láta þá tala sínu máli en ekki hv. þm.