Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 16:43:23 (2575)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að fara örfáum orðum um þær aðgerðir sem nú hafa verið boðaðar. Ég dreg ekki í efa að nauðsynlegt var að grípa til aðgerða í efnahagsmálum. Mér hafði verið það ljóst um margra mánaða skeið og hafði þess vegna forgöngu um að á haustþinginu var utandagskrárumræða um aðgerðir eða réttara sagt aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Þá voru svör hæstv. forsrh. á þá leið að allt væri á réttri leið, stjórnarstefnan væri að skila sér og nú þyrfti ekki annað en eilitla þolinmæði og biðlund til þess að hún skilaði því sem til var ætlast. Á þessum tíma sáu nánast allir aðilar, í það minnsta hver einasti aðili sem var annaðhvort í samkeppnisiðnaði, útflutningi eða ferðaþjónustu, að aðgerðir voru löngu tímabærar. En ríkisstjórnin kaus að neita að horfast í augu við staðreyndir og því stöndum við í þeim sporum í dag að því miður er hér væntanlega um að ræða aðgerðir sem bæði eru of litlar og koma of seint.
    Ég vil einnig minna á, og væri ágætt að hæstv. forsrh. heyrði, að það er ekki bara nú á haustdögum sem fram hafa komið tillögur um að það þyrfti að fara kostnaðarlækkunarleið. Ég minni á að forustumenn Vinnuveitendasambandsins bentu á þetta við kjarasamninga upp úr síðustu áramótum og útfærðu að nokkru leyti þá leið að leggja yrði niður aðstöðugjaldið og fleiri kostnaðartengda skatta og mæta því með álögum á þá sem hefðu tekjur til þess að borga. Ég minni á að ríkisstjórnin blés á þessar tillögur þá og því miður einnig forusta ASÍ.
    Ég nefni þetta hér að hluta til vegna þess að sá sem hér stendur nefndi það ítrekað við ráðherra í umræðum á þingi á síðasta vetri að þessa leið yrði að skoða.
    Ég vil einnig benda á að mér hefur alla tíð verið ljóst að kostnaðarlækkunarleiðin yrði ekki framkvæmd öðruvísi en það kæmi við einhvern. Þess vegna kemur mér eilítið á óvart þegar einstaka þingmönnum, sem formlega, m.a. í nafni síns flokks, lögðu til að þessi leið yrði farin, kemur á óvart að slík leið þýðir 4--5% samdrátt í kaupmætti. Mér var alla tíð ljóst að menn færðu ekki kostnað frá atvinnulífinu yfir á einstaklinga öðruvísi en það þýddi kaupmáttarskerðingu. Hins vegar veldur vonbrigðum í þessum tillögum hvernig sú kaupmáttarskerðing dreifist.
    Ég vil í því sambandi nefna það sem ég tel vera plúsana við þessar aðgerðir. Það er fyrst og fremst niðurfelling aðstöðugjaldsins sem ég tel að hafi meiri jákvæð áhrif en menn hafa talið fram til þessa. Þetta er einfaldlega skattur sem í mörgum tilfellum veltir upp á sig á svo ósanngjarnan hátt í þjóðfélaginu að

áhrifin munu verða víðtækari að mínu mati en menn hafa reiknað með. Þá tel ég einnig það að fara í viðhaldsframkvæmdir á þessu stigi á vegum ríkisins og vegagerð séu hvort tveggja jákvæðir þættir og skynsamlegt að grípa til þess núna meðan lægð er í framkvæmdum.
    Ég ætla síðan að koma að neikvæðu þáttunum og draga þá eilítið saman í upphafi. Þá er fyrst það sem ég nefndi áðan hvernig álögurnar á einstaklinga koma fram. Þegar við fulltrúar í efh.- og viðskn. gengum eftir því við embættismenn ríkisvaldsins að fá útreikninga um hvernig þessar tillögur mundu koma fram, hvernig þær mundu koma við almenning, þá var lítið um svör. Þeir útreikningar eru ekki til. Það eina sem virðist hafa verið gætt að á síðasta stigi þessara aðgerða er að hátekjufólki og fjármagnseigendum tókst að koma vörnum við. Það er því miður nokkuð í anda ríkisstjórnarinnar og hennar vinnubragða frá upphafi að þessum aðilum sé hlíft. Eins og þetta liggur fyrir núna bendir allt til þess að þeir sem beri þyngstar byrðar af þessu séu miðlungstekjufólkið, þeir sem eru rétt fyrir ofan skattleysismörkin og eitthvað þar upp eftir skalanum. Það er ósköp einfalt mál að hækkun á bensíni og matvælahækkun vegna gengisfellingarinnar kemur langsamlega þyngst niður á þessum hópum. Ríkisstjórninni hefur þess vegna algerlega mistekist það sem þó var grunntónninn í umræðum ASÍ-manna þegar rætt var um þjóðarsátt að byrðunum yrði jafnað þannig niður að af yrði nokkur tekjujöfnun.
    Þá ætla ég að nefna ferðamálin. Það er ótrúlegt að það skuli gerast á þessum tíma að þannig skuli vera gengið fram í þessum skattkerfisbreytingum að sú grein sem á kannski einna mesta möguleikana til einhverrar framsóknar skuli vera skattlögð sérstaklega. Þetta er eins og einn orðheppinn forustumaður í launþegahreyfingunni orðaði við okkur í efh.- og viðskn. í gærkvöldi: Þetta er stjörnugalin aðgerð. Það getur ekki hafa verið ætlunin að lækka tryggingagjald og afnema aðstöðugjald á ferðaþjónustunni til þess að rýma fyrir öðrum sköttum. Það er alveg ljóst að þessi grein þurfti á því að halda kannski umfram allar aðrar okkar útflutningsgreinar, því að þetta er útflutningsgrein sem aflar mikils gjaldeyris, að áhrif gengisfellingar kæmu þannig fram að ferðir lækkuðu í erlendum gjaldmiðli. Því miður stendur ríkisstjórnin þannig að þessu máli að það getur ekki orðið.
    Þá vil ég nefna til viðbótar húshitunarkostnaðinn. Það getur ekki verið sanngjarnt að skattleggja húshitun á þennan hátt. Ég nefni í því sambandi að þetta er skattur sem kemur sérstaklega illa niður á landsbyggðinni.
    Aðeins til viðbótar varðandi ferðamálin. Dæmið lítur þannig út að um er að ræða 400 millj. kr. aukaálögur á þá grein.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu en ég vil þó að lokum koma að sjávarútveginum. Nú þætti mér vænt um í það minnsta að sjá til sjútvrh. Í fyrsta lagi var það mjög sérstakt að horfa upp á það í gær að hæstv. utanrrh. kynnti í raun þær tillögur sem standa að baki nýja sjóðnum. Það glopraðist út úr stjórnarliðum í dag að það átti ekkert að kynna þessar tillögur í gær. Það var hæstv. utanrrh. sem missti þetta út úr sér þegar hann var kominn á flug í ræðustól.
    Það liggur fyrir að hér er um að ræða ákveðna lausn til þess að klára starf tvíhöfðanefndarinnar. Í upphafi máls míns um þetta atriði get ég glatt hæstv. sjútvrh. með því að eftir að hafa skoðað málið í dag frá þeim hliðum sem ég hef séð, þá sé ég ekki betur en hæstv. sjútvrh. hafi sigur í þessari lotu. Það er rætt um upptöku veiðileyfagjalds á miðju næsta kjörtímabili --- nú er ég þess fullviss að þá mun sitja önnur ríkisstjórn en nú er --- en í öðru lagi hefur hæstv. sjútvrh. tekist að ganga þannig frá hnútunum að um langt árabil þar á eftir muni gjaldið renna til baka til sjávarútvegsins og á þann hátt slegið út af borðinu umræðu um almenna skattlagningu á greinina sem menn hafa stundum viljað kalla auðlindaskatt. Þarna held ég að hæstv. sjútvrh. hafi komið ákveðnum krók á Alþfl.
    Hins vegar er ýmislegt annað aðfinnsluvert við sjóðinn. Eins og sjóðurinn hafði verið kynntur fyrir aðilum í sjávarútvegi og þeir kynntu okkur í efh.- og viðskn. í gærkvöldi, og nú bið ég hæstv. ráðherra að hlusta þannig að hann geti leiðrett mig ef ég fer með rangt mál, er honum ætlað að taka við sjávarútvegsfyrirtækjunum jafnóðum og þau yrðu gjaldþrota. Það kemur einnig fram í skrifum Morgunblaðsins í dag að annar stjórnarflokkurinn túlkar þetta þannig að í gegnum sjóðinn verði hægt að afskrifa með gjaldþrotum um 20% af sjávarútvegsfyrirtækjunum á næstu tveim árum. Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Miðað við þær forsendur sem hagsmunaaðilar hafa fengið í hendurnar og það sem Alþfl. kynnir í fjölmiðlum hvernig ætlar hæstv. sjútvrh. að koma í veg fyrir byggðahrunið sem hann nefndi á fundinum fræga á Akureyri? Það verður að veruleika að verulegu leyti nema menn hverfi frá því, eins og þessi nýi sjóður er kynntur, að taka fyrirtækin úr rekstri jafnóðum og sjóðurinn kemur til bjargar. Eins og Alþfl. kynnir sjóðinn á hann að taka þau fyrirtæki úr rekstri sem eru gjaldþrota eða við það að verða gjaldþrota og bankarnir eiga að geta ávísað sínum skuldbindingum á sjóðinn. Sjóðurinn á síðan að taka fyrirtækin úr rekstri til þess að fækka og skapa svigrúm fyrir önnur. Þetta er hugmyndafræðin.
    Hins vegar tel ég að menn muni ekki hafa þrek, og þá segi ég ,,þrek`` innan gæsalappa, til að framkvæma þessa skuldbreytingu á þennan hátt og þetta muni fara í það horf að í gegnum þennan sjóð verði skuldbreytt hjá einhverjum hóp af verst stöddu fyrirtækjunum án þess að tekið verði almennt á fjárhagslegri endurskipulagningu. Það er staða sem er illþolandi fyrir þá sem standa þokkalega og hafa allan vilja til að greiða úr sínum skuldamálum með sínum rekstri. Með þessu verða þau komin í stöðu þeirra verst reknu.
    Ég vil eindregið, virðulegi forseti, fara fram á að sjútvrh. skýri fyrir okkur í ræðu á eftir betur en

hann gerði í dag hvernig hann sér fyrir sér að þessi sjóður, jónasveinasjóðurinn, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. skýrði sjóðinn í gær og hann losnar sjálfsagt aldrei við það nafn, verði rekinn. Ég vil að hæstv. sjútvrh. lýsi fyrir okkur hvernig hann sér fyrir sér að þetta verði framkvæmt. Það liggur alveg ljóst fyrir í ummælum sjútvrh. frá síðustu vikum og reyndar umræðunni í gær og viðtölum við blaðamenn í gær hvernig hæstv. utanrrh. sér fyrir sér að þetta verði framkvæmt. Það er á þann veg sem ég lýsti fyrir ráðherranum áðan.
    Ég vil að lokum benda á við hvaða aðstæður sjávarútvegurinn er að vinna meðan sjóðurinn verður að vinna sitt verk, að fækka fyrirtækjunum um 20% á næstu tveim árum samkvæmt yfirlýstu markmiði a.m.k. sumra þeirra sem standa að ríkisstjórninni. Það kom mjög greinilega fram í umræðum okkar við aðila vinnumarkaðarins í gærkvöldi og í dag að ef við ætlum að líta raunhæft á hvað þessar aðgerðir þýða gagnvart sjávarútveginum þá lítur það þannig út að þá hallaprósentu sem reiknuð var 8% í september þarf að hækka um 3--4%. Grunnurinn til þess að reikna, ef við ætlum að reikna rétt, væri 11--12% tap sem stefnir í á næsta ári. Ef við tökum síðan það sem aðilar í sjávarútvegi segja --- ég ræddi við forstjóra eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins í morgun. Hann sagði: Fyrir mitt fyrirtæki þýðir gengisfellingin og það sem er í kringum hana 1--1,5% og aðstöðugjaldið 1%, þ.e. 2,5%. Þjóðhagsstofnun hefur viljað fara upp undir 5% en þá er hún búin að reikna til tekna 1,8% tekjuauka vegna verðhækkana á næsta ári sem enginn aðili í sjávarútvegi getur reiknað með. Það liggur því ljóst fyrir að sá grunnur sem sjávarútvegurinn verður að starfa við á næsta ári er tap eftir þessar aðgerðir upp á 5--8%. Því miður væntanlega í efri kantinum á þessu.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda lengri ræðu á þessu stigi. Það sem ég legg höfuðáherslu á er að hæstv. sjútvrh. skýri út frá sínum sjónarhóli hvernig á að framkvæma úreldingu og frystingu skipa og vinnslustöðva í gegnum nýja sjóðinn sem hæstv. utanrrh segir að verði það eina sem eftir standi í umræðunni um þær efnahagsráðstafanir sem hér hafa verið kynntar.